Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 14:55:28 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:55]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Línuflækja er einhver versta flækja sem hendir í veiðarfærum til sjós. Málflutningur hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur er hrein línuflækja. Mig langar að vekja athygli á nokkrum atriðum sem hafa komið fram í máli hennar hér og reyndar í fyrri umræðu.

Hvað meinar hv. þingmaður, varaformaður sjávarútvegsnefndar, með því að segja að takmörkun á veiðiskyldu muni auka aflann? Hvað meinar þingmaðurinn? Það væri mjög fróðlegt að fá skýringu því. Það er hægt að fyrirgefa reynsluleysi en það er með ólíkindum að þurfa að hlusta á það reynsluleysi sem marka má af málflutningi hv. þingmanns, varaformanns sjávarútvegsnefndar, sem sagði til að mynda í haust, með leyfi forseta:

„Sannleikurinn er sá að skötuselurinn er ný fisktegund á Íslandsmiðum, það eru ekki mörg ár, kannski tveir áratugir, síðan hans fór fyrst að verða vart á íslenskum fiskimiðum.“

Ég endurtek, með leyfi forseta:

„Sannleikurinn er sá að skötuselurinn er ný fisktegund á Íslandsmiðum …“

Hvaða bull er þetta? Það var byrjað að veiða skötusel á Íslandsmiðum um 1920. Þá þegar, fyrsta árið, 80 tonn á árabátum og slíku þannig að það er með ólíkindum hvernig þetta reynsluleysi markar þessa umræðu í öllu, tillögugerð og hugmyndum. Þetta er algerlega úr takt við raunveruleikann í byggðum landsins, verstöðvunum um allt land.

Í þriðja lagi sagði hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir þegar rætt var um fyrningarleiðina að ef flotinn mundi sigla í land fengju bara aðrir kvótann. Hverjir aðrir? Er einhver annar floti til en íslenski flotinn í dag? Er hv. þingmaður að tala um flota Kínverja, Formósu — eða hverra? Hvaða bull og vitleysa er þetta þegar fjallað er um fjöregg íslensku þjóðarinnar, íslenskan sjávarútveg? Þetta gengur ekki.