Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 15:02:17 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Tíðrætt verður hv. þingmanni um orðið virðingu. Hann mætti viðhafa hana sjálfur í máli sínu gagnvart bæði mönnum og málefnum. Ég ætla að vitna orðrétt í nefndarálitið þar sem ég tala um veiðiskyldu og aukna veiði því að ég sagði orðrétt, eins og stendur í álitinu:

„Jafnframt telur meiri hlutinn að breytingartillögur sem miða að því að auka veiðiskyldu geti stuðlað að aukinni veiði.“

Þetta voru mín óbreytt orð.

Varðandi það að afnema óvissuna og afstöðu útvegsmanna til þeirra áforma stjórnvalda að breyta íslensku fiskveiðistjórnarkerfi þannig að sátt geti verið um fyrirkomulag þess meðal þjóðarinnar er svolítið sérkennilegt þegar menn tala um óvissuna og ætla að sigla flotanum í land í mótmælaskyni — við hvað? Útfærsluna sem kallað er eftir, útfærsluna sem útvegsmenn telja sig ekki vita hver er og enginn þykist vita hvernig verður en þeir eru samt tilbúnir að sigla í land, samt tilbúnir að viðhafa hótanir um viðbrögð sín ef farin verður sú leið sem þeir þó segjast ekki vita hver er. Þessi umræða er alger della og að sjálfsögðu verða menn að taka á þessu máli af lágmarksábyrgð og samfélagslegri ábyrgð því að verkefnið er stórt og verkefnið þarf að vinnast með aðkomu allra sem hlut eiga að máli, bæði útgerðarmanna, stjórnmálamanna og þeirra stjórnvalda sem við lýði eru.