Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 15:33:42 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu um frumvarpið í smærri atriðum eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði, heldur langar mig aðeins til að ræða um það sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans, að þetta frumvarp sé rof á griðum og tefji vinnu við samstarfshóp, 18 manna hópinn sem kallaður hefur verið sáttanefnd í sjávarútvegsmálum, hóp sem ég stýri og hv. þingmaður er þátttakandi í. Ég held að okkur sé báðum fyllilega ljóst að það skiptir gríðarlega miklu máli að reyna að ná sátt um þessa grein til lengri tíma. Eitt af því sem er í erindisbréfi starfshópsins er að skilgreina helstu álitaefni og síðan að vinna nauðsynlegar greiningar. Þar er einmitt markmiðið að skapa góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fyrir utan það að fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti og að sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnina meðal þjóðarinnar.

Það kom fram strax í upphafi vinnu hópsins þegar hæstv. ráðherra Jón Bjarnason mætti á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir því að samhliða vinnu nefndarinnar, sem ætti fyrst og fremst að vinna að langtímatillögum og útfærslum til lengri tíma, mundu koma inn mál sem væru til skamms tíma, jafnvel til bráðabirgða þar sem tekið yrði á einstökum málum. Þetta var tilkynnt strax í upphafi þó að starfshópurinn hafi ekkert sérstaklega fjallað um hver þau mál væru.

Það kemur mér því á óvart að LÍÚ hafi valið að gera skötuselsmálið að sérstöku úrslitamáli í sambandi við vinnu þessa hóps. Ég lít þannig á að þeir hafi með þeim hætti gert rof á griðunum. Ég tel mjög mikilvægt að þessi samtök komi aftur að borðinu og að við vinnum okkar vinnu með þau markmið sem við höfðum í þeirri vinnu. Ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á því að þessi vinna haldi áfram og að við reynum að ná þeim markmiðum (Forseti hringir.) sem sett voru í upphafi. Ég vona að hann geti fjallað um það hér í svari við andsvari.