Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 15:38:19 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er fyllilega ljóst að deilan snýst kannski fyrst og fremst um það hvaða mál koma fram í þessu frumvarpi. Það er fyrst og fremst skötuselsmálið sem hefur valdið ágreiningi og menn hafa sett þau mörk að það hefði þurft að draga þann hluta frumvarpsins til baka til þess að LÍÚ sæi sér fært að vinna áfram að sáttargjörð í sjávarútvegi.

Ég get upplýst hér að það kom fram í umræðunni fyrir jól að menn vildu gjarnan beita sér fyrir því að skötuselsmálinu yrði breytt þannig að þeir sem höfðu haft til ráðstöfunar 3.000 tonn í skötusel og voru skertir niður í 2.500 tonn fengju aftur 500 tonnin þannig að ekki væri verið að kalla inn aflaheimildir af þeim sem hefðu haft þær áður, heldur fengju þeir hluta af aukningunni. Samtímis yrði þá með einhverjum hætti reynt að taka tillit til þess hvernig hægt væri að taka á meðafla, m.a. grásleppuafla á Norðurlandi. Eins var undirstrikað að þarna væri, eins og ég segi, um að ræða tilraun til tveggja ára og starfshópurinn hefði að sjálfsögðu rétt til þess að koma með aðrar tillögur um hvernig haga skyldi framhaldinu.

Að þessu öllu saman sögðu verð ég að viðurkenna að það kom mér á óvart að menn skyldu ekki taka í þessa framréttu sáttarhönd stjórnarflokkanna, koma að borðinu og reyna að vinna að málum í takt við það. Það er það sem veldur vonbrigðum vegna þess að það er svo gríðarlega mikið í húfi. Það er líka alvarlegt hversu langan tíma það hefur einmitt tekið að reyna að skera úr um þau mál sem menn hafa talið valda sérstakri óvissu í málinu, þ.e. svokallaða innköllunarleið, en það var einmitt ætlun starfshópsins að vinna hratt og vel að því. Það verður aldrei gert nema allir séu við borðið. Ég lýsi því algjörlega ábyrgð á hendur LÍÚ varðandi það að hafa ekki verið við borðið og bið úr ræðustól Alþingis um að þeir komi að því borði og að við gerum tilraun til að ná sátt í málum varðandi sjávarútveginn til langs tíma. Það verður ekki gert með hótunum eða (Forseti hringir.) áróðursherferðum eins og nú eru í gangi sem mér eru algjörlega óskiljanlegar.