Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 15:40:39 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get mjög vel tekið undir og gert að mínum þann sáttfúsa tón sem kom fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Ég veit að þetta er hans einlægi vilji, rétt eins og það er minn einlægi vilji að menn setjist allir að þessu borði til að reyna að finna lausn á þeim mikla vanda sem við erum óneitanlega stödd í núna í þessari sjávarútvegsumræðu. Hún er á mjög óheppilegum nótum að mínu mati. Þessi heitingaumræða er ekki góð fyrir sjávarútveginn og ekki fyrir þjóðfélagið okkar.

Við skulum núna bara leggja til hliðar hver er að hóta hverjum. Við segjum í nefndarálitinu að grið hafi verið rofin af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður undirstrikar það, en leggur áherslu á að LÍÚ hafi með óeðlilegum hætti haft hér uppi hótanir. Við skulum ekki rífast um þetta. Ef verkefnið er það og vandinn sem við er að glíma er sá sem fram kemur í frumvarpinu, að útbreiðslusvæði skötuselsins hafi aukist, menn fái hann sem meðafla í miklu meiri mæli en áður, að hér séu ákveðin vandamál uppi af þeim ástæðum, eigum við þá ekki að reyna að sættast á þá lausn, a.m.k. til að byrja með, meðan nefndin er að ná vopnum sínum og komast að niðurstöðu, og hafa til staðar meðaflaákvæði? Það mætti þess vegna vera rúmt meðaflaákvæði sem gerir mönnum sem ekki hafa þessar aflaheimildir það mögulegt að landa skötusel án þess að það teljist til kvóta, hvort sem menn gera það að einhverju leyti eða ekki að neinu leyti. Það er sú leið sem við í minni hlutanum lögðum til vegna þess að við viðurkennum og sjáum auðvitað og skiljum alveg það vandamál sem uppi er í þessari tegund eins og reyndar fleirum þegar svona háttar til, útbreiðslusvæðið hefur verið að breytast og kvótasetningin átti sér stað þegar aðstæðurnar voru öðruvísi.

Ég hvet þess vegna til þess að við reynum þá frekar að gera eitthvert samkomulag í þessum dúr sem er einhvers konar málamiðlun sem leysir málin a.m.k. til skamms tíma meðan við erum að festa fangs á viðfangsefninu sem annars bíður okkar.