Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 15:44:41 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði auðvitað gert mér grein fyrir þessum orðum í nefndaráliti meiri hlutans. Þetta er hins vegar dálítið sérkennilegt, og erfitt í rauninni að lesa úr þessu nefndaráliti þegar það er borið saman við þann texta sem er í frumvarpinu og meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar gerir engar athugasemdir við. Í texta frumvarpsins er einfaldlega sett ákveðið markmið. Þetta markmið gengur út á að nota allt að 2.000 tonnum og þá er væntanlega ekki verið að tala um 10 eða 20 tonn. Þá er væntanlega verið að tala um einhverjar tölur sem liggja nálægt þessum 2.000 tonnum. Við erum að tala um tilraun til tveggja ára. Menn hafa væntanlega fyrir framan sig einhverjar tölur í þessum efnum. Væntingarnar sem hafa verið búnar til í sambandi við þetta frumvarp ganga allar út á 2.000 tonn eða nálægt þeirri tölu. Ég veit að menn hafa velt fyrir sér að taka 500 tonn, setja þau inn í aflahlutdeildina og úthluta síðan einhverju minna. Þetta er hins vegar allt saman bara fugl í skógi, þetta eru allt saman einhver orð sem enginn veit hvað í raun og veru þýða.

Það sem hv. þingmaður sagði þó núna var að farið yrði í þessi mál af mikilli gætni. Mér fannst hv. þingmaður vera að gefa til kynna að ætlunin yrði ekki sú að úthluta þessum 2.000 tonnum, heldur einhverri lægri tölu. Ef eitthvað væri að marka samráð við Hafrannsóknastofnunina sem hefur varað við þessari leið er a.m.k. mjög ólíklegt að niðurstaða hæstv. ráðherra geti orðið sú að hann ætli að úthluta hér 2.000 tonnum af skötusel. Það væri hins vegar fróðlegt að fá fram hvort menn hafi t.d. innan meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar rætt um einhverjar lægri tölur í þessu sambandi. Ég vek athygli á því að þetta voru ekki bara mín orð, ég gerði orð útflytjenda í sjávarafurðum að mínum þegar ég vitnaði til þess að þeir segðu að svo gæti farið að skötuselsafurðir okkar yrðu óseljanlegar á erlendum mörkuðum ef þetta frumvarp yrði samþykkt óbreytt og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mundi framkvæma frumvarpið þannig að hann úthlutaði allt að 2.000 tonnum, (Forseti hringir.) 80% umfram ráðgjöf.