Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 16:10:59 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er af nógu að taka í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar og mér mun ekki vinnast tími til að fara í það allt. Þingmaðurinn heldur því fram að með frumvarpinu sé verið að keyra niður eina atvinnugrein til að færa fjármuni inn í aðra. Hér er um það að ræða að njóta tekna af veiðum sem ætla má að geti orðið arðbærar, taka tekjurnar af þeim veiðum til þess m.a. að styðja við atvinnulíf í landinu. Ég hefði frekar búist við því að hv. þingmaður mundi taka undir slíka viðleitni frekar en að hafa allt á hornum sér varðandi það.

Hann hefur ásamt fleiri ræðumönnum líka gert mikið úr þeirri forræðishyggju sem í því felist að ætla að fara að hvetja til vinnslu uppsjávarafla, þá erum við nú kannski fyrst og fremst að hugsa um makrílinn. Þar eins og við vitum hefur gríðarleg auðlindasóun átt sér stað, alveg gríðarleg, þar sem fiskinum er mokað upp úr sjónum og mokað í bræðslu, verðmætum, dýrmætum matfiski. Hvers konar umgengni er það við auðlindir og við náttúrugæði?

Stjórnvöld þurfa auðvitað að hafa einhverja nýtingarstefnu. Þegar aðilar sem hafa forræði og njóta þeirra forréttinda að fá tekjur af auðlindinni sýna ekki sjálfir viðleitni í þá átt að fara betur með verðmæti en dæmin sanna, t.d. í sambandi við makrílinn, hljóta stjórnvöld að setja einhverja stefnu. Um það snýst þetta mál.