Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 16:17:30 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst það sem lýtur að leigunni. Ef mönnum er gert að veiða meira þá gerist það bara að menn munu veiða meira, það verða sem sagt minni leigumöguleikar, minni möguleikar fyrir nýja aðila til að koma inn í greinina, það er alveg augljóst.

Það er síðan risastórt mál hvort þær hugmyndir sem Samfylkingin og fleiri hafa haft um að rétt sé að ríkið þjóðnýti aflaheimildirnar og leigi þær út eða selji eða hvað það vill gera, það er önnur og dýpri umræða og mjög merkileg. Ég er í hópi þeirra sem telja að ekki sé skynsamlegt að þjóðnýta íslenskan sjávarútveg, ég tel að honum sé betur komið eins og nú háttar til og sérstaklega vil ég minna á að við vorum einmitt með það kerfi í fiskveiðunum sem sneri að sóknarmarkinu, sem var m.a. skrapdagakerfi, sem er nákvæmlega sami vandi og nú er uppi í makrílveiðunum.

Ég vil gera að umræðuefni það sem sagt var hér um hrun íslenska fjármálakerfisins. Það vantar ekki upp á það að alls konar eftirlitsstofnanir og stjórnmálamenn hafi komið að því öllu saman. Þó er sá grundvallarmunur á að hér er um að ræða atvinnutæki og framleiðslu sem ég tel algjörlega einsýnt að sé betur komið í höndum einstaklinga en í höndum ríkisins. Ég held að það verði að segjast eins og er að það lýsi í það minnsta nokkuð sérkennilegum skilningi á því sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi að leggja að jöfnu það hrun sem varð í bankakerfinu og orsakir þess og nota það síðan sem einhvern sérstakan rökstuðning fyrir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem ekki situr lengur hér, eigi að taka ákvörðun um það hvort vinna eigi uppsjávarfisk í manneldi eða eitthvað annað. Ég held að það sé nokkuð langt seilst, herra forseti.