Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 16:19:39 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Allt frá því að við Íslendingar fórum að búa í þessu landi okkar höfum við nýtt fiskinn í sjónum, þessa miklu auðlind sem býr í hafinu í kringum landið okkar. Sjávarútvegur er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og skapar þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur og fólkinu í landinu mýmörg störf. Sterkur sjávarútvegur er grundvöllur byggðanna hringinn í kringum landið.

Í þeim mikla hraða sem einkennt hefur íslenskt samfélag undanfarin ár má segja að hluti þjóðarinnar hafi gleymt þeirri staðreynd að sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Hinn sterki sjávarútvegur er lykillinn að því að við endurreisum efnahag okkar og stóra verkefnið okkar allra felst í því að eyða minna og skapa meiri gjaldeyristekjur og þar kemur sjávarútvegurinn til með að leika lykilhlutverk.

Við búum við það að sett hefur verið á kvótakerfi. Tilgangur kerfisins var sá að auka arðsemi og draga úr tapi útgerða. Það tap var komið til vegna allt of mikillar sóknargetu flotans og útgerðarmönnum var þá að sama skapi gert að skera niður flotann, það fylgdi. Það má segja að ekki þurfi kvótakerfi til þess að vernda fiskstofnana, hægt er að setja hámarksafla á hverja tegund og láta menn svo bara veiða þar til kvótinn er búinn. Það yrði þá bara kapphlaup en það er hægt. Ég tel það hins vegar ekki vera skynsamlegt. Kerfið okkar er aftur á móti ekki fullkomið og það má að sjálfsögðu skoða það, sníða af því helstu ágalla og fara yfir það reglulega, helst þannig að reynt sé að leita sátta um það hvað megi betur fara.

Margir erlendir aðilar líta á kvótakerfið okkar sem fyrirmynd, sem dæmi um gott kerfi sem hefur gefist vel. Það er hins vegar, eins og ég sagði áðan, ekki gallalaust. Þess vegna var ágætt þegar sett var á fót sérstök nefnd af hálfu sjávarútvegsráðherra að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem átti að fara yfir helstu álitamálin í sjávarútvegsmálunum og skoða hverju þyrfti að breyta. Það vekur því furðu, eins og fram hefur komið í máli fleiri hv. þingmanna hér í dag, að verið sé að rjúfa þá sátt sem skapaðist um að stofna þessa nefnd og þá sátt og þá hvatningu, sem m.a. hefur komið fram frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að þessi nefnd hefði vinnufrið, að þessari nefnd yrðu skapaðar þær starfsaðstæður að ekki yrðu hjaðningavíg í umræðunni og sérstaklega ekki hér á þingi eins og ég skildi það, og ekki yrðu lagðar til stórfelldar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu á meðan nefndin væri að störfum. Frumvarpið sem við ræðum í dag gengur þvert á þær yfirlýsingar, gengur þvert á öll þau stóru orð sem fallið hafa í þessu máli í þá áttina að hér skuli skapast sátt. Það er því hálffurðuleg staðreynd að frumvarpið sé komið til umræðu í þinginu.

Herra forseti. Svo virðist sem stjórnarflokkarnir séu ekki meðvitaðir um þá þörf sem er knýjandi í samfélaginu að við reynum að ná einhverri sátt um þau mál sem við ræðum á þinginu. Svo virðist alla vega ekki vera á þeim vinnubrögðum sem ástunduð eru hér. Bæði er það varðandi þetta mál og svo málið sem við ræddum fyrr í dag sem snerist um setningu náttúruverndaráætlunar. Það mál var rifið út úr nefnd í ósætti og það sama skilst mér að hafi gerst varðandi þetta mál. Þar sem ég heyri að formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, óskar eftir að koma í andsvar við mig langar mig að spyrja hvort það sé einhver meðvituð stefna hjá ríkisstjórnarflokkunum að reyna að skapa þær aðstæður hér í þinginu að málin sé ekki kláruð í nefndum og rædd þar heldur séu þau rifin þaðan út í ósætti. Það væri ágætt að fá svar við þeirri spurningu.

Frumvarpið gefur forsmekkinn að því hvaða leið verður farin varðandi fyrningarhugmyndir ríkisstjórnarflokkanna og það birtist í ákvæðinu um skötuselinn. Nú er það svo að fyrningarleiðinni — sem boðuð hefur verið af ríkisstjórnarflokkunum, án þess að hún hafi verið útfærð nokkurs staðar þannig að hönd sé á festandi, nema þá helst með þeirri vísbendingu sem við erum með hér í höndunum — hefur verið mótmælt harðlega hringinn í kringum landið af sveitarstjórnum, af hagsmunaaðilum og ekki síst af hálfu þeirra sem starfa í sjávarútveginum. Ég sat fjölmennan íbúafund og borgarafund í Vestmannaeyjum 21. janúar þar sem saman komu fulltrúar sjómanna, útvegsmanna, sveitarstjórnar og eins voru þar fjölmargir almennir bæjarbúar, en Vestmannaeyjabær og fólkið sem býr þar er dæmi um samfélag sem byggir allan sinn grunn á sterkum sjávarútvegi. Það er gríðarlega slæmt á óvissutímum sem þessum, þegar nóg er af verkefnum til að taka á varðandi efnahagsstjórnina, að verið sé að rugga þeim bát sem sterkasta og mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar er, sem er sjávarútvegurinn, með því að setja fram þessar fyrningarhugmyndir og þessa fyrningarleið.

Til dæmis hefur verið fjallað um þessa hugmynd ríkisstjórnarflokkanna í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte frá 2009 og þar er fullyrt að fjöldagjaldþrot verði í atvinnugreininni ef til þess komi að fyrningarleið ríkisstjórnarinnar verði farin. (ÓÞ: Þetta er rangt.) Þetta er rétt og þetta kom fram í þessari skýrslu, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir fær sinn tíma til að tala hér á eftir. Áhrif slíks á byggðirnar hringinn í kringum landið verða umfangsmikil. Ég hef áhyggjur af því að menn skuli ekki sjá að sér og taka þessar hugmyndir einfaldlega út af borðinu. Framtíðarsýn okkar í sjávarútvegi gæti verið björt vegna þess að gengið er hagstætt þeirri grundvallaratvinnugrein eins og staðan er í dag. Þess heldur er ástæða til að hlúa að þeirri grein og styrkja undirstöðurnar í stað þess að ráðast að grunni hennar eins og hér er verið að gera.

Herra forseti. Aflamarkskerfið er ekki bara til fyrir sjávarútveginn heldur fyrir alla þjóðina, af þeim ástæðum sem ég talaði um hér áðan. Hagræðing fylgdi í kjölfar þessara breytinga. Ég held að enginn geti mótmælt því að með kvótakerfinu kom til miklu meiri hagræðing í greininni. Það eru milli fimm og sex þúsund sjómenn sem hafa atvinnu af sjávarútvegi og góða afkomu eins og staðan er í dag og það er stöðugleiki í fiskvinnslunni og það hafa verið miklar tækniframfarir. Vissulega finnur maður fyrir þeim óróa sem er ekki síst hjá fiskverkafólki vegna þessara hugmynda ríkisstjórnarflokkanna. Ég vil einfaldlega hvetja þá hv. þingmenn stjórnarflokkanna sem hlýða á mál mitt að skoða hug sinn og ræða við fólkið sem starfar í þessari grein, bæði þá sem starfa á sjónum og eins landverkafólkið. Ég tel að það væri til fyrirmyndar ef hv. þingmenn mundu gera það og enn meiri bragur væri að því ef ríkisstjórnarflokkarnir gæfu nefndinni, sem þeir sjálfir skipuðu til að fara yfir þessi mál, vinnufrið. Ég mundi telja að það besta sem hægt væri að gera í stöðunni í dag væri að taka frumvarpið einfaldlega út úr þinginu, fresta þessari umræðu og gefa nefndinni færi á því að vinna í friði.

Skötuselsmálið, svo að ég snúi mér aðeins að því, er vísbending um það hvernig úthlutunaraðferðir gætu orðið ef af fyrningu verður. Það má eiginlega segja að með þessum fyrningarhugmyndum öllum sé verið að ríkisvæða kvótann, það er í rauninni það sem er verið að gera. Og svo maður tali meira um skötuselsákvæðið er það eiginlega það furðulegasta í þessu öllu að það virðist eiga að leyfa gegndarlausar veiðar á þessari tegund. Ég skil einfaldlega ekki hvers vegna sjávarútvegsráðherra leggur þetta fram, það er algjörlega óábyrgt. Ég tel að fá þurfi frekari skýringar á því hvers vegna menn leyfa sér að gera þetta.

Ekki virðist vera hlustað á þær áhyggjuraddir sem ég ræddi um og koma bæði fram hjá sveitarstjórnarmönnum og eins fólkinu sem starfar í greininni. Ekki virðist vera brugðist við og ekki reynt að leita neinna sátta. Það veldur mér áhyggjum og maður spyr sig hvort um skilningsleysi sé að ræða eða hvort einfaldlega sé um það að ræða að til valda er komið fólk sem hefur beðið mjög lengi eftir því að komast til valda og fer ekki betur með vald sitt en reynslan sýnir. Ég hef áhyggjur af því og ég vona að svo sé ekki. Ég vona að þetta sé einfaldlega hugsunarleysi og að mönnum hafi hlaupið kapp í kinn og farið hraðar í hlutina en þeir hefðu ella gert og hafi ekki hugsað málin til enda. Ég spyr enn og aftur: Hvers vegna er nefndinni ekki veittur sá starfsfriður sem henni ber? Hvers vegna er talað um að leita sátta í orði en þegar horft er á verkin á borði er það ekki það sem er verið að gera. Og þessi aðferðafræði ríkisstjórnarflokkanna birtist ekki eingöngu í þessu máli heldur virðist hún poppa upp í hverju einasta máli sem rætt er í þinginu og ég hef áhyggjur af því. Er þetta verkstjórnarvaldið sem menn kepptust við að koma hér á með því að steypa ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokk? Er það þetta sem menn vildu? Ég leyfi mér að efast um það. Ég leyfi mér að efast um það að í hjarta sínu séu margir stjórnarþingmenn ánægðir með þessi vinnubrögð. Þetta er ríkisstjórn sem segir eitt í orði en gerir allt annað á borði.