Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 16:38:42 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nokkur orð um þetta ágæta mál. Ég vil byrja á því að þakka hv. framsögumanni nefndarinnar, Ólínu Þorvarðardóttur, fyrir að gera vel grein fyrir áliti okkar í meiri hlutanum við 2. umræðu og þakka fyrir þá vinnu sem hefur verið í nefndinni, þó að henni yrði auðvitað að ljúka með því að málið væri afgreitt út úr henni. Einnig fyrir þær umræður sem fram fóru hér á haustþinginu.

Um leið þykir mér það vera orðinn nokkur plagsiður hér í þinginu að það er eins og stjórnarmeirihlutinn megi ekki fara fram með hin sjálfsögðustu stefnumál sín, um fremur óverulega hagsmuni, eins og margt í þessu máli er í hinu stóra samhengi hlutanna, til að mynda skötuselurinn, án þess að hér sé tekinn upp söngurinn um griðrof og óvissuna og stríð af hálfu stjórnarinnar og að ekki megi vinna málið lengra og þar fram eftir götunum. Ég held að hv. alþingismenn eigi að hugsa sinn gang nokkuð í þeim málflutningi, því það er nú svo að hingað eru þjóðkjörnir menn og konur komin til að fylgja þeim stefnumálum sem þau hafa kynnt í lýðræðislegum kosningum og fengið stuðning til að mynda hér ýmist meiri hluta eða minni hluta.

Ég held að það sé algerlega fjarri lagi að í þessu máli séu einhver stórkostleg efnisatriði sem ekki eru í samræmi við málflutning þeirra flokka sem fara með meiri hluta og skipuðu ríkisstjórn eftir síðustu kosningar, í samræmi við yfirlýstan vilja í stjórnarsáttmála stjórnarinnar og sannarlega einfaldlega ákvarðanir sem eðlilegt og skylt er að taka á þingi. Alþingismenn eru í miklum mæli að kalla eftir því að þingið ræði ekki mál og fjalli ekki um mál og afgreiði ekki mál, vegna þess að starfandi séu hópar utan þingsins sem ræða svipuð mál eða sambærileg, hugsanlega í öðru samhengi. Það held ég að kunni sannarlega ekki góðri lukku að stýra, því hér er auðvitað fyrst og fremst um afmarkaðar breytingar í sjávarútveginum að ræða, sem ég tel að sé fullkomlega eðlilegt að hæstv. ráðherra hafi flutt um stjórnarfrumvarp. Ég held að það hafi fengið góða umfjöllun. Hér hefur verið kallað eftir umsögnum og málið vegið og metið af nefndarmönnum og það afgreitt þaðan út.

Það er auðvitað svolítið eins og að heyra storminn hrópa eftir logni að heyra hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kalla eftir sérstökum friði í þessum málaflokki. Það veit auðvitað hver maður að þeir flokkar sem tala hæst um frið og grið settu hér á og höfðu forustu um kerfi sem aldrei hefur verið nokkur friður um og engin grið eiga sérstök að vera um. (Gripið fram í.) Þeir hafa verið í fararbroddi fyrir stjórnkerfi fiskveiða sem þorri Íslendinga er og hefur verið á móti. Vilji menn ræða um einhver griðrof í því, þá er það auðvitað stóra málið, kvótakerfið sjálft og eignarhaldið í því sem eru þau griðrof, en ekki einstaka breytingar sem hér er verið að fjalla um. Breytingarnar eru rétt um átta talsins og lúta að mörgu. Það er auðvitað þannig að á einstökum þeirra geta verið skiptar skoðanir en að þær umbylti eða segi í sundur friði í samfélaginu með einhverjum hætti er auðvitað fjarri öllu lagi. Ég held að það sé nauðsynlegt að við gætum nokkurs hófs í yfirlýsingum um slíka hluti í umræðu okkar, því menn gengisfella orð sín með því að hafa þau svo stór, til að mynda um þær ákvarðanir sem hér er verið að leggja til og varða skötuselinn.

Auðvitað eru það umtalsverðir hagsmunir fyrir þá sem í hlut eiga, ég dreg enga dul á það og auðvitað er hér brotið í blað. Vissulega verður áhugavert að fylgjast með því hvernig reynslan af þessu verður. Vonandi getum við lært af henni og hún haft víðtækari áhrif síðar meir í sjávarútveginum sem heild, en þær tillögur sem hér liggja fyrir eru ekki með þeim hætti að þær eigi að kalla á stóryrði sem þessi.

Hér hefur verið talað um sáttanefndina. Það er rétt að sú nefnd hefur verið starfandi og formaður hennar kom upp í umræðuna og hafði engar athugasemdir við það að þetta mál væri til afgreiðslu, heldur stendur eins og við stjórnarliðar aðrir bara að afgreiðslu út úr nefnd og stuðningi við málið sem slíkt. Enda er það auðvitað svo og hefur lengi legið fyrir að í stjórnarsáttmálanum eru tilteknar stefnuyfirlýsingar þeirra flokka sem fengu fylgi til þess að gera hér ákveðnar breytingar í samfélaginu í framhaldi af hruninu og það lá þá þegar fyrir að ætlun okkar væri að hrinda fram breytingum sem taka ættu gildi haustið 2010 og það í miklu stærri atriðum en um ræðir í þessu tiltekna máli, þannig að í febrúarmánuði árið 2010, nærri ári eftir að ríkisstjórnin tók við, er þetta mál til afgreiðslu. Þótt strandveiðifrumvarpið á síðasta ári hafi verið afgreitt með miklum harmkvælum og sams konar harmkvælum og hér eru uppi af hálfu Sjálfstæðisflokksins, þá rúmast þær ákvarðanir vel innan þess kerfis sem verið er að vinna í og menn eiga auðvitað að geta rætt um framtíð kerfisins í heild sinni í sáttanefnd þar fyrir utan. Ég get ekki með nokkru móti séð að þetta mál spilli fyrir því. Ég held ekki að nokkur málefnaleg rök hafi verið færð fyrir því.

Það er auðvitað eftir því kallað að almenningur njóti arðsins og sannarlega er verið að stíga lítið skref í þá átt í þessu máli, og því er gert ráð fyrir því að ef ráðherrann nýtir þær heimildir sem honum eru veittar, auðvitað í góðu samráði við Hafró, það er engum blöðum um það að fletta að hann mun hafa gott samráð við vísindamenn okkar á þessu sviði áður en hann tekur ákvarðanir um það, þá muni leigutekjur af hluta þeirra aflaheimilda sem úthlutað er renna til ákveðinna félagslegra verkefna. Hver eru þessi félagslegu verkefni? Þessi félagslegu verkefni eru annars vegar aukið virði sjávarfangs, sem er auðvitað gríðarlegt hagsmunamál, bæði fyrir almenning og greinina sjálfa, að hún sé efld og styrkt með rannsóknum og tilraunum af ýmsu tagi og slík verkefni styrkt og fjármögnuð til að auka þau verðmæti sem við erum að fá úr sjávarafla okkar. Hins vegar átak til atvinnusköpunar.

Hverjir standa nú hér og tala hve hæst gegn því? Það eru þeir hinir sömu og í upphafi hvers fundar kalla eftir aðgerðum í atvinnumálum. Menn mega ekki heyra minnst á að reistir séu tekjustofnar til að verja til átaks í atvinnusköpun og óhætt er að segja að þá er nú málflutningurinn farinn að rekast býsna mikið á eigin horn þegar menn hefja þingfundina á því að kalla eftir aðgerðum til atvinnusköpunar, en leggjast síðan gegn því þegar kemur fram á fundinn að nokkrar tekjur af aflaheimildum kunni að renna til slíkra verkefna. Það væri ágætt út af fyrir sig ef einhver þeirra sem flutt hefur bæði sjónarmiðin í senn gæti rökstutt þá afstöðu hér við umræðuna.

Nei, ég held að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu sannarlega margar þarfar og einfaldlega innan þeirra marka sem eðlilegt er að hæstv. ráðherra þurfi að láta til sín taka frá einu þingi til annars. Hann gerir ekki neinar þær grundvallarbreytingar á sjálfu kerfinu að þurfa eigi að segja sundur frið fyrir einum eða neinum.

Hér eru líka ýmsar aðrar breytingar en þær sem varða skötuselinn sem ég held að út af fyrir sig eigi að geta verið góð samstaða um. Aðgreining til að mynda á karfanum held ég að sé sannarlega orðin tímabær fyrir nokkru og þótt skiptar skoðanir kunni að vera um veiðiskylduna, þá hefur mjög verið eftir því kallað að draga úr þeim heimildum.

Ég verð að játa að ég undraðist nokkuð ræðu talsmanns Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, hér áðan, hvað laut að vinnsluskyldunni, að þeirri heimild sem hér er verið að veita ráðherra fyrir vinnsluskyldu og þeim orðum að hér væri í atvinnumálum einhvers konar gamaldags forræðishyggja á ferð.

Ég verð að játa að mér þóttu orð hv. þingmanns fremur lýsa gamaldags og úreltri frjálshyggju í því að engar heimildir mætti veita framkvæmdarvaldinu til að hafa aðhald með þeirri grein sem hér á í hlut. Með fullri virðingu fyrir því góða fólki sem starfar í sjávarútveginum og er auðvitað best til þess bært að taka þær ákvarðanir frá degi til dags, þá er auðvitað bara eðlilegt og sjálfsagt að hæstv. ráðherra hafi heimild til þess ef fyrir því skapast málefnalegar ástæður að kalla eftir því að afli sé unninn til manneldis, að úr honum séu fengin sem mest verðmæti fyrir þjóðarbúið og kostur er. Sérkennilegt er ef Alþingi má ekki veita hæstv. ráðherra slíka heimild. Nú er það auðvitað svo að slíkar heimildir eru ekki veittar til þess að þær séu notaðar í tíma og ótíma. Þær eru auðvitað fyrst og fremst veittar til að þær séu til staðar ef á þarf að halda, en alla jafna hljótum við að ganga út frá því að það þurfi ekki að beita þeim, en ég held að við höfum engin sérstök málefnaleg sjónarmið fyrir því að veita ekki hæstv. ráðherra þessa heimild ef slíkar aðstæður skapast. Sé um það ágreiningur, þá eru þingmenn auðvitað fullfærir um að taka slíkan ágreining upp við hæstv. ráðherra og veita honum aðhald við þær aðstæður, sem þessu þjóðþingi er ætlað með framkvæmdarvaldinu.