Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 16:59:57 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hér greinir á í grundvallaratriðum er sú skoðun okkar sjálfstæðismanna að betra sé að skilja peningana eftir í atvinnugreininni og hún byggi sig upp, sérstaklega í sjávarútvegi sem er hryggjarstykki í allri landsbyggðinni og hinum dreifðu byggðum. Ekki sé skynsamlegt að fara fram með umframskatta á þá atvinnugrein umfram aðrar til að taka síðan í atvinnuuppbyggingu sem á að gera með þeim hætti að stjórnmálamenn og embættismenn ákveði hvernig eigi að ráðstafa þeim peningum. Það er því engin þversögn fólgin í því að kalla eftir eðlilegum efnahagsaðgerðum sem eiga að koma í veg fyrir hrun í atvinnulífinu og því að standa fast gegn því að lagðir séu auknir skattar og álögur á eina helstu grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar.

Það sem ég vil nefna, herra forseti, af því að hér hefur verið rætt hvort um sé að ræða einhverjar grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, er að í fyrsta lagi er hér um þá grundvallarbreytingu að ræða að taka á úr sambandi það mikilvæga samband sem er á milli aflahlutdeildarinnar og aflamarksins, þ.e. að þeir sem ráða yfir aflahlutdeildinni geti treyst því að þegar veiðin er skorin niður og er aukin síðar muni þeir njóta aukningarinnar. Með frumvarpinu er verið að skera á þessi mikilvægu tengsl. Það er grundvallarbreyting frá því sem verið hefur.

Í öðru lagi er lagt til að með lögum verði ákveðið að heimila sjávarútvegsráðherra að fara 2.000 tonn fram úr ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem þýðir u.þ.b. 80% framúrkeyrslu. Þetta eru grundvallaratriði og um þetta getur ekki og á ekki að verða sátt, herra forseti. Þess vegna höfum við gert svo veigamiklar athugasemdir við frumvarpið, það er óskynsamlegt og það eykur á óvissu í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar.