Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 17:04:23 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Helga Hjörvar, það eru deilur um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið. En það verður að segjast eins og er að hún er ekki góð, lausnin sem fram er borin hér til þess að ná sátt um arðinn af greininni, að búa svo um hnútana að alltaf verði til minni og minni arður, að það verði sátt um að hafa bara engan arð. Þetta frumvarp er skref í þá átt. Það er óskynsamlegt og það dregur úr verðmætasköpun. Við hljótum að geta verið sammála um að við eigum ekki að fara með íslenskan sjávarútveg í þá átt, hvað svo sem mönnum finnst síðan um spurninguna um hvar eignarhaldið eigi að liggja.

Það að taka úr sambandi þetta mikilvæga samhengi sem ég nefndi áðan á milli aflahlutdeildarinnar og hámarksaflans er mjög óskynsamlegt og færir okkur nær því kerfi sem m.a. Evrópubúar á meginlandinu búa við. Það hefur sýnt sig æ ofan í æ að það er endalaus krafa sjómanna um að veiða miklu meira en raunverulega er hægt að gera af því að menn hafa engan hag af því að fara skynsamlega fram.

Í öðru lagi, hvað varðar þetta heimildarákvæði sem er í lögunum, varðandi hversu mjög menn ætla að geta keyrt fram úr þeirri ráðgjöf sem Hafrannsóknastofnun setur fram, bara það eitt að segja að ráðherrann hafi heimild frá Alþingi til að fara 80% fram úr ráðgjöfinni er grundvallarbreyting á þeirri nálgun sem við höfum haft um það hvernig eigi að nýta fiskimiðin með sjálfbærum hætti. Ef það er ekki að rjúfa í sundur frið veit ég ekki hvað það er fyrir utan það sem ég fór yfir í ræðu minni um hversu óskynsamlegt ég tel það vera að gera nýliðum það erfiðara að koma inn í greinina, en það gerist óhjákvæmilega og óumflýjanlega þegar veiðiskyldan er aukin. Þar með eru minni möguleikar einfaldlega vegna þess að minna magn er til á leigumarkaði.

Svo vil ég benda á eitt, það var alveg sérstaklega tekið fram í stöðugleikasáttmála sem ríkisstjórnin gerði við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið að hvað varðar endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu skyldi þeirri endurskoðun vera haldið í þeim sáttafarvegi sem var settur upp. Um þetta var samkomulag. (Forseti hringir.) Það á að standa við slíkt samkomulag og það sem hér er að gerast er að mínu mati fullkomin eðlisbreyting (Forseti hringir.) á því fiskveiðistjórnarkerfi sem um er að ræða og getur ekki (Forseti hringir.) og verður ekki sátt um.