Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 17:09:10 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Um það verður ekki deilt að á Íslandi er rekinn einhver hagkvæmasti sjávarútvegur í heimi. Það segir kannski í fáum orðum allt sem þarf að segja um það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við, jafnvel þó að það sé umdeilt. Ef við berum þetta saman við t.d. stöðuna í Evrópusambandinu, hjá þeim löndum sem eru þar í sjávarútvegi, er þar allt annað upp á teningnum. Þar er um gríðarlega styrki að ræða. Ef við byggjum við sambærileg kjör og sjávarútvegur í þeim löndum mætti reikna með að hér þyrfti sennilega að styrkja sjávarútveg um meira en 200 milljarða kr. á ári. Við getum tekið Frakkland sem dæmi þar sem eru allt of margir sjómenn, allt of stór floti. Það eru tífalt fleiri sjómenn, margfalt fleiri fiskiskip, en þau veiða minna af fiski en við. Íbúar í þessum löndum eru í sjálfu sér sáttir við þá skattlagningu sem felst í styrkjaumhverfinu þar vegna þess að af heildarmyndinni í þeim löndum skiptir þetta ekki eins miklu máli og á Íslandi þar sem við erum að tala um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. Afkoma hans skiptir þetta þjóðarbú öllu máli.

Markmið fiskveiðistjórnar eru alveg kristaltær, að auka hagkvæmni, þ.e. að það verði ódýrara að veiða hvert tonn og að hún stuðli að sjálfbærri nýtingu fiskstofna, það verði ekki gengið um of á auðlindina þannig að hún komi til með að nýtast um aldur og ævi.

Það er mjög mikilvægt að við horfum til þess að það verði sátt í samfélaginu um sjávarútveg og það verði mjög mikil sátt í samfélaginu um að sjávarútvegur skili arði, það verði hagnaður af sjávarútvegsfyrirtækjum. Það er nokkuð sem hlýtur að eiga að vera sameiginlegt markmið okkar. Við munum mörg þau ár áður en fiskveiðistjórnarkerfið kom til og jafnvel eftir það, meðan málin voru að breytast, að hér var stórkostlegt tap í sjávarútvegi oft og tíðum og varð að vera að leiðrétta fyrir því með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélagið í heild sinni. Við höfum svo sem þá skyldu hér að reyna að haga málflutningi okkar með þeim hætti að ábyrgur sé og gera þjóðinni grein fyrir því hversu mikilvægt er að fara varlega þegar við fjöllum um málefni sjávarútvegs, að við séum ekki að leita neinna byltingarleiða þegar um breytingar er að ræða á kerfi sem hefur þó skilað þessum árangri sem þetta kerfi hefur skilað, einum hagkvæmasta sjávarútvegi í heimi.

Sjávarútvegsmál hafa í gegnum tíðina verið gerð að kosningamáli. Þannig hefur þjóðin oft talað og menn hafa farið fram með hugmyndir um róttækar breytingar á því kerfi en niðurstaða kosninga hefur ekki verið í þá átt að meiri hluti hafi fengist til að fara þær leiðir. Reglurnar sem voru á sínum tíma kannski umdeildastar í þessu kerfi eru um framsalið. Þær voru settar í tíð ríkisstjórnar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Frá því að þessir flokkar samþykktu upp úr 1990 það fiskveiðistjórnarkerfi og þær breytingar sem þá voru gerðar hafa þeir verið í andstöðu við eigin gerðir. Það má segja að núverandi útvegsmenn, stórir og smáir, litlar og stórar útgerðir, fjölskyldufyrirtæki úti um allt land, og stærri fyrirtæki sem hafa náð að eflast, hafi í raun ekkert gert annað en að spila bara eftir settum reglum og auðvitað í trausti þess að leikreglurnar héldu, að áfram yrði gefið og að hægt væri að treysta. Fyrirtækin hafa fjárfest í þessum iðnaði til uppbyggingar, bæði í frekari fiskveiðiheimildum og í tækjum og búnaði.

Það má heldur ekki gleyma því að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur ítrekað gefið það út að hún telji framsalið hornstein í hagkvæmni kerfisins. Hún varar mjög við róttækum breytingum í því. Það ítrekar hversu varlega við verðum að fara með þetta fjöregg þegar við fjöllum um breytingar á þessum vettvangi.

Það er líka ágætt að rifja upp, og kannski alveg sérstaklega út af ummælum hv. þm. Helga Hjörvars hér áðan um að ósætti hafi ríkt um kvótakerfið frá byrjun, að það er heilmikið til í því. Það ósætti hefur síðustu árin kannski helst verið keyrt áfram af þeim flokkum sem áttu stóra ágreiningsefnið skuldlaust í þessu kerfi, framsalið, þ.e. af þingmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna. Ósættið í byrjun var hjá útvegsmönnum, hjá þeim sem voru í sjávarútvegi, sjómönnum, fiskvinnslustöðvum og útvegsmönnum. Það var verið að skerða rétt þeirra til að stunda þá atvinnu sem þeir höfðu stundað um árabil. Ósættið er búið að vera frá byrjun en það var af þeirra hálfu fyrstu árin á meðan verið var að koma þessu í þann farveg sem nú er.

Við sjálfstæðismenn höfum sagt að við erum tilbúnir til að vinna að breytingum sem geta stuðlað að frekari sátt en við leggjum áherslu á að vörður verði staðinn um stöðugleika í sjávarútvegi okkar, að við förum ekki einhverjar byltingarkenndar leiðir eins og boðaðar hafa verið af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Þar er ég að vitna í fyrningarleiðina. Það verður að fara varlega, skoða málin og hugsanlegar afleiðingar slíkra breytinga ofan í kjölinn.

Fá eða engin mál í sjávarútvegi hafa hlotið þó eins mikla samstöðu og andstaðan gegn fyrningarleiðinni. Það segir mjög mikið um hana, það er alveg sama hvort í hlut eiga sjómenn, útgerðarmenn, fiskvinnslustöðvar eða sjávarbyggðir; enginn hefur mælt þessu bót.

Því var í sjálfu sér ánægjulegt að sjávarútvegsráðherra skyldi setja á laggirnar sáttanefnd sem skipuð er öllum hagsmunaaðilum og fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem hafa lýst yfir vilja til að koma að þessu borði og finna einhverja sáttaleið. Þá kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra fram með þetta frumvarp sem við fjöllum um hér í dag sem er ekkert annað en brot á þeim friði sem ríkisstjórnin lofaði að mundi ríkja um vinnu í þessu máli og það rúm sem átti að gefa til að fara í þessa vinnu. Það er alveg magnað að við skulum enn og aftur horfa á aðgerðir þessarar ríkisstjórnar kalla á eins mikla andstöðu hjá hagsmunaaðilum og raun ber vitni og hve lítið þessi ríkisstjórn sem vill kenna sig við lýðræði, gegnsæi og breytt vinnubrögð hlustar á allar þær athugasemdir sem koma fram.

Það er ekki hægt að segja neitt annað en að með þessu ósætti sé ríkisstjórnin enn og aftur að setja stöðugleikasáttmálann, þann tímamótasáttmála sem náðist milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um mitt síðastliðið ár, í uppnám út af enn einu málinu hér. Nefndarstarfið er komið í uppnám, það nefndarstarf sem ég held að flestir hafi bundið ákveðnar vonir við, vegna vinnubragða ríkisstjórnarinnar.

Það er mjög sérstakt í ljósi þeirra ummæla sem sjávarútvegsráðherra hafði á LÍÚ-þingi þar sem hann ítrekaði að hann mundi sérstaklega taka tillit til þess að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þyrfti til að ljúka sinni vinnu.

Það er eiginlega ekki hægt að horfa fram hjá því að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar virðast vera með þeim hætti í atvinnumálum landsins að það sé eitthvert markmið að setja hlutina í uppnám. Við sjáum það ekki bara gagnvart sjávarútvegi þar sem afleiðingarnar eru í raun alveg skelfilegar. Við sjáum hvernig sjávarútvegur víða í sjávarbyggðum landsins höktir, fyrst og fremst vegna yfirvofandi ógnana af hálfu ríkisstjórnarinnar. Fyrirtæki eru að hætta að fjárfesta, það er lítil nýfjárfesting í greininni, viðhald er skorið niður, fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn eru farin að missa verk og farin að segja upp fólki.

Við sjáum þetta líka í orkufrekum iðnaði. Við sáum þetta þegar náttúruverndaráætlun var keyrð í gegnum þingið í dag í algjörri andstöðu við umsagnaraðila þrátt fyrir ítrekuð loforð ríkisstjórnarinnar og hæstv. umhverfisráðherra þegar mælt var fyrir þessu í haust um að nú yrði gefið gott ráðrúm til að fara vel yfir þessi mál. Ríkisstjórninni virðist ekki vera sjálfrátt í þessum efnum. Það er alltaf eins og hún sé að reyna að draga hér upp einhver mál til þess að breiða yfir þá miklu óáran sem er í allri atvinnustefnu hennar.

Með þessu frumvarpi má ótvírætt segja að stigið sé skref til baka og dregið úr hagkvæmni. Fyrir því hafa verið færð rök og fyrir því eru færð góð rök í áliti minni hlutans í þessu máli. Leið nýliða inn í þessa grein hefur verið í gegnum framsalið. Þar hafa menn getað keypt sér kvóta, hafið útgerð og leigt með til þess að byggja sig hægt og bítandi upp eins og gjarnan gerist í öðrum greinum atvinnulífsins. Menn kaupa sér fyrirtæki og fara af stað. Framsalið hefur verið leiðin að þessu. Það er því gríðarlega mikilvægt þegar farið er að hreyfa við framsalinu sem hefur verið eitt aðalágreiningsmálið að reyna að vanda til verka og láta engar byltingarkenndar hugmyndir ráða þar ferðinni. Með stórstígum skrefum í framsalsbreytingunum væri verið að kippa rekstrargrundvelli undan fjölda smærri útgerða úti um allt land og skilja fólk eftir í sárum. Það væri verið að setja fjöldamörg fyrirtæki í þrot. Það er það sem er að gerast með þeirri ógn sem vomir yfir.

Allar þessar aðgerðir hafa síðan þau áhrif að hrekja héðan erlenda aðila sem hafa áhuga á að fjárfesta í íslensku atvinnulífi á öðrum vettvangi. Það er þessi óstöðugleiki sem þetta skapar.

Það má segja að með þeim breytingum sem gerðar eru á tillögum um veiðar á skötusel sé botninum náð. Það er farið 80% umfram veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og það á sér engin fordæmi í nokkurri tegund. Stjórnarþingmenn hafa komið hér og reynt að gera lítið úr þessari breytingu. Það hefur verið talað um að þetta sé bara heimild til ráðherra. En hvað gerir ráðherra með svona heimild? Það er náttúrlega skýrt að hann muni nýta sér þessa heimild. Þá er talað um að þetta sé lítið mál ef talað er um heildarmyndina í sjávarútvegi. Það er alveg rétt. Skötuselur vigtar ekki stórt í sjávarútvegsmálum okkar en það er þessi stefna sem skiptir öllu máli. Það kom ítrekað fram hjá gestum sem komu fyrir sjávarútvegsnefnd út af þessu máli að það væri verið að setja markaðsstarf í uppnám, ekki bara á skötusel heldur jafnvel á öðrum tegundum, vegna þess að það væri verið að setja mjög svartan blett á sjávarútvegsstefnu og þá vistvænu stefnu sem hér hefur verið keyrð í sjávarútvegsmálum.

Ef við mundum fara þessa leið í þorski settum við á kvóta í þorski sem væri vel á þriðja hundrað þúsund tonn. Það að reyna að réttlæta það með að þetta sé bara einhver heimild sýnir algjört skilningsleysi, að þetta sé bara svo lítil mynd af heildarmyndinni að þetta skipti ekki máli sýnir skilningsleysi hv. þingmanna á málinu.

Aðilar eru líka farnir að fjárfesta út á þetta. Það liggur fyrir. Menn eru farnir að kaupa veiðarfæri og jafnvel báta og ætla sér að fara að gera alveg sérstaklega út á þessar heimildir.

Frumvarpið er til þess fallið að auka á óstöðugleika í greininni sem við máttum ekki við frekar en orðið er og er í raun ekkert annað en skref að þessari óraunhæfu fyrningarleið sem ríkisstjórnin hefur kynnt og forsætisráðherra hótar ítrekað að verði keyrð í gegn á þessu fiskveiðiári og taki gildi í byrjun næsta fiskveiðiárs, síðar á þessu ári. Það er í ósátt við flesta eða alla hagsmunaaðila að keyra þetta í gegn með þessum hætti.

Það er alvarlegt þegar hv. þingmenn tala hér um að þetta hafi síðan engin áhrif. Það sýnir skilningsleysi manna og enn og aftur verðum við vitni að því að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og hæstv. ríkisstjórn gera sér ekki grein fyrir því aðgerðaleysi og þeim skemmdarverkum sem þau eru að vinna íslensku atvinnulífi með þeim ákvörðunum sem verið er að taka.