Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 18:29:34 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir ræðu hans. Eins og von er á er ég kannski ekki alls kostar sammála honum í greiningu hans en ég er þó sammála honum um að það verður að ná eins konar sátt. Einn helsti ljóður á núverandi kvótakerfi er að ekki ríkir sátt um það. Svo virðist vera sem þeir í þéttbýlinu, sérstaklega í Reykjavík eða í kringum Reykjavík og kannski kringum Akureyri að einhverju leyti, hafi aðrar skoðanir á því hvernig á að nýta fiskstofnana og hvernig á að gera sem mest úr þeim, heldur en þeir sem búa í sjávarbyggðunum um landið. Ekki er hægt að skýra það með því að það búi bara sjálfstæðismenn í sjávarbyggðum. Það verður að skýra það einhvern veginn öðruvísi. Ef menn bera brigður á þessa greiningu mína geta menn farið hringinn í kringum landið þar sem öll sveitarfélög í sjávarbyggðunum hafa ályktað um að þau leggist á móti þessari fyrningarleið vegna þess að það setji afkomu sjávarútvegs í hættu í byggðarlögunum og þar af leiðandi tilveru sveitarfélaganna.

Mig langar til að spyrja: Ef þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra hvernig stendur þá á því að öll sveitarfélögin við ströndina hafa ályktað gegn fyrningarleiðinni. Við gefum okkur þá forsendu að það búi ekki bara sjálfstæðismenn úti á landi.