Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 18:33:25 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:33]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þetta ágæta svar. Ég er algerlega sammála hv. þm. Róberti Marshall um það að æskilegt væri að fram færi einhvers konar útreikningur þar sem menn kæmu sér saman um reiknimeistarann. Þessi sáttanefnd væri t.d. góður vettvangur til þess. Það er því mjög bagalegt að útvegsmenn hafi séð sig til knúna til að hverfa af þeim vettvangi vegna þess að verið væri að fikta í kerfinu meðan verið væri að ræða um hvort eigi að breyta einhverju.

Þetta með útfærslu á fyrningarleiðinni, það liggur algerlega ljóst fyrir að í plöggum Samfylkingarinnar stendur að afskrifa eigi um 5% á ári, sem sagt að taka kvótann til baka á 20 árum. Það er ekkert flókin útfærsla ef hv. þingmaður mundi kannski tjá sig um það.