Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 18:34:35 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:34]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það eru til útfærslur, bæði í fórum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, í þessum efnum. En ég tel mjög mikilvægt að menn horfi einfaldlega á innköllun og endurráðstöfun veiðiheimilda sem meginprinsipp í þessari umræðu, ekki endilega þær útfærslur sem kynntar hafa verið til sögunnar af þessum stjórnmálaflokkum. Eins og ég sagði í ræðu minni er mjög ólíklegt að sátt verði um það eitt og sér þrátt fyrir að rúmur helmingur þjóðarinnar hafi verið tilbúinn til að fallast á þá leið. Ég er einfaldlega að segja: Komumst að sameiginlegri niðurstöðu sem flestir geta verið sáttir við. Þó að aldrei náist að sjálfsögðu fullkomin sátt í þessum efnum þá ætti sameiginlegur útreikningur — og ég nefni t.d. stofnun á borð við Háskólann á Akureyri sem gæti komið að þeirri vinnu — að geta orðið góður grundvöllur til þess að menn gætu þokað málinu áfram og upp úr þeim skotgröfum sem það hefur verið í allt of lengi.