Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 18:42:10 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég verð þó að segja að ég er býsna ósammála henni að flestu ef ekki öllu leyti. Þó var ég sammála hv. þingmanni um eitt: Það er nauðsynleg forsenda að við náum sátt. En það hvernig hv. þingmaður nálgast það að sú sátt náist er mjög undarlegt svo að ekki sé sterkara að orði kveðið. Hann heldur því fram að stjórnvöld hafi brugðist við þeirri óvissu sem ósættið um fiskveiðistjórnarkerfið valdi með því að skipa sáttanefnd þrátt fyrir að búið sé að lýsa yfir að ekki sé hægt að ná um þetta sátt, og það er alfarið rangt. Stjórnvöld skipuðu þessa sáttanefnd, með aðild allra þessara aðila, en undirliggjandi var hótun um það að reyna ætti að ná sátt um fyrningarleiðina. Fyrningarleiðin er eitthvað sem ekki bara útgerðarmenn og ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn, ekki bara þeir sem eiga einhverra hagsmuna að gæta, heldur mjög margt annað skynsamt fólk út um allt land, sveitarfélög, hagsmunasamtök, hafa sett sig alfarið á móti. Þess vegna er ekki hægt að ná sátt um einhverja ákveðna niðurstöðu.

Þingmaðurinn var með áskoranir á hendur stjórnarandstöðu og okkar sjálfstæðismanna en ég skora á hv. þingmann að taka þátt í sátt. Að leggja þessar hugmyndir til hliðar vegna þess að þær eru greinilega, og þingmaðurinn sagðist vera í sáttahug, hvað sem þingmanninum finnst um það, ekki til þess fallnar að skapa sátt. (Forseti hringir.) Ef einhver vilji er til að ná sameiginlegri lendingu (Forseti hringir.) um þetta mikilvæga mál þá verður að leggja það til hliðar (Forseti hringir.) og byrja með hreint borð og ekki fyrir fram gefna niðurstöðu.