Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. febrúar 2010, kl. 19:12:57 (0)


138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:12]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er á forræði hæstv. ráðherra. Það er ráðherra sem leggur það fram, það er ráðherra sem mótar þá stefnu að hluti af því fjármagni sem átti að fást við uppboð á skötuselsheimildunum átti að renna til byggðalegra aðgerða. Nú upplýsir hæstv. ráðherra að líklega hafi hæstv. iðnaðarráðherra komist með puttana í þetta mál, dregið þessa peninga úr byggðaaðgerðunum og ákveðið að setja þá í annan sjóð — eru nógir sjóðirnir í iðnaðaráðuneytinu — til allt annars konar ráðstöfunar en þeirrar sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði lagt upp með. Ég verð að segja að mér finnst ótrúlega veikt af hæstv. ráðherra að láta það gerast að tekin sé um það ákvörðun, stórpólitísk byggðaleg ákvörðun, að hverfa frá því að þessir fjármunir renni til byggðalegra aðgerða og þeim sé þess í stað beint í allt aðrar áttir. Þetta er örugglega hinn merkasti sjóður, Átak til atvinnusköpunar , ég geri ekki lítið úr því. Það er hins vegar ljóst að verkefni hans eru ekki af byggðalegum toga. Ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir eru núna að beygja af leið. Þeir eru að hverfa frá þessum byggðalega vinkli af því að Samfylkingin ákvað það, greinilega án þess að hafa nokkurt samráð við hæstv. ráðherra sem flutti málið. Það er ótrúlegt að verða vitni að þessu.

Hæstv. ráðherra svaraði síðan ekki spurningunni um það hvaða áform hann hefði uppi um það hversu miklu hann ætlaði að úthluta til viðbótar í skötuselnum. Hann sagðist ætla að taka upp viðræður við Hafrannsóknastofnun. Hafrannsóknastofnun hefur sagt álit sitt. Hafrannsóknastofnun segir að það eigi ekki að úthluta meira en 2.500 tonnum. Ég spurði hæstv. ráðherra einfaldrar spurningar sem er þessi: Hver er hans skoðun, hver eru hans áform? Hvernig ætlar hann að bregðast við? Við vitum hvert svar Hafró er, það þarf ekki einu sinni að halda fund um það, það er bara að opna skýrsluna frá því í júní í fyrra. Þar stendur hvað Hafró vill gera í þessum efnum. En hvað vill ráðherrann gera? Ætlar hann að úthluta 2.000 tonnum, (Forseti hringir.) 1.500 tonnum, 1.000 tonnum eða (Forseti hringir.) einhverju öðru? Einhverjar ljósar hugmyndir hlýtur ráðherrann að hafa.