Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 12:45:08 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist á hv. þingmanni að hann komi hér í andsvör fyrst og fremst til að mynda einhvern ágreining sem ég átta mig ekki alveg á hver er, í það minnsta er ekki verið að beina spurningum til mín vegna ræðu minnar. Enn er komið inn á þessa vinnsluskyldu sem kveðið er á um að ráðherra hafi heimild til að beita, vinnsluskyldu á uppsjávarfiski. Hv. þingmaður heldur því fram að greinin hafi séð um það sjálf hingað til að hámarka afrakstur úr einstökum tegundum, ég hef nú verið þarna á vettvangi áratugum saman, og það hefur greinin bara ekkert alltaf gert. Ég var einn af þeim fyrstu sem fóru til veiða í Smugunni á sínum tíma og þá sá greinin ekki um það ein og óstudd að hámarka afrakstur úr þeim veiðum. Enda er hér ekki um skylduákvæði að ræða til að kveða á um hvernig á að veiða fisk, þetta er heimildarákvæði, þetta er heimild, fyrst og fremst yfirlýsing um það hvernig við viljum nýta (Forseti hringir.) auðlindir sjávar.