Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 13:02:50 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var áhugavert og veitti nokkra innsýn. Það er nefnilega þannig að það er sjávarútvegsráðherra sem hefur tekið þessar ákvarðanir. Ef menn skoða hvernig þær ákvarðanir hafa verið teknar, og bilið á milli þess sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til og þess sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur síðan gert, sjá menn að hæstv. ráðherrar hafa reynt að fylgja eins og þeir hafa getað þessari niðurstöðu, það hefur verið sterk tenging á milli.

Það er alveg rétt að í þingsályktunartillögu lögðum við sjálfstæðismenn til að vegna sérstakra og hörmulegra aðstæðna í íslensku efnahagslífi væri rétt að horfa til þess að þegar heildaraflinn í þorski var ákveðinn á sínum tíma, þegar ákveðið var að taka hann svona mikið niður, var það reist á þeim rökum að svo vel áraði í íslensku efnahagslífi að ástæða væri til að ganga harðar fram í niðurskurði en nauðsynlegt væri út frá líffræðilegum sjónarmiðum til að fá hraðari uppbyggingu þorskkvótans. Á grunni þess að ákvörðunin var tekin út frá þessari staðreynd, þ.e. að svo vel áraði í efnahagslífi þjóðarinnar, segjum við: Nú þegar þessar hörmungar hafa gengið yfir er ástæða til að endurskoða þá ákvörðun og skoða hvort ekki sé heppilegra fyrir þjóðina að við veiðum þá meira af þorski. Það yrði að sjálfsögðu gert í fullu samráði við Hafrannsóknastofnun en á þessum grunni. Þetta ætti hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að vera fullljóst.

Það sem hér er á ferðinni er algjör nýlunda. Hér er verið að leggja það til af hálfu sjávarútvegsráðherra, sem kemur úr flokki Vinstri grænna, sem hafa reynt að skreyta sig með hugmyndum um sjálfbæra nýtingu, að setja eigi það í lög að ráðherra hafi heimild til að fara 80% fram yfir þá nýtingu sem Hafrannsóknastofnun telur að sé sjálfbær. Um þetta hljóta að vakna spurningar og þetta er fordæmislaust. Ég þekki ekki nokkur dæmi þess að það hafi átt að setja það inn í lög að ráðherra hafi slíka heimild og það sé m.a.s. tekið til í tonnum. Þetta er alveg furðuleg nálgun svo að ekki sé meira sagt, frú forseti.