Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 14:25:04 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar glímum nú við afleiðingar falls bankanna. Við ætlum okkur að byggja upp sterkt samfélag og ein sterkasta stoðin í þeirri baráttu er íslenskur sjávarútvegur sem stendur styrkum fótum. Við höfum borið gæfu til þess að búa honum slíka umgjörð að það er staðreynd. Sterkur sjávarútvegur sem skapar miklar gjaldeyristekjur. En hann er ekki bara sterkur, hann er líka sjálfbær. Með þessu frumvarpi, og þá vísa ég sérstaklega til ákvæða til bráðabirgða varðandi skötuselinn, er verið að hverfa frá því. Þar er verið að heimila slíkar veiðar á skötuselnum og að mínu mati er það ekki viðunandi. Ég furða mig á því hvers vegna hv. þingmenn Vinstri grænna sem hingað til hafa kennt sig mjög við náttúruvernd og við vernd ýmissa lífvera og fallvatna, hvernig þeir geta staðið að þessu frumvarpi. Mér er bara mikil spurn að því. Ég hreinlega óska eftir því að ég sé upplýst um það, af hæstv. sjávarútvegsráðherra, eða öðrum hv. þingmönnum Vinstri grænna, hvernig þetta fer saman við náttúruverndarstefnu Vinstri grænna.

Íslenskur sjávarútvegur er ekki bara sterkur og sjálfbær, hann er líka arðsamur. Það er ekki síst mikilvægt nú á tímum. Eitt af markmiðum kvótakerfisins okkar er ekki bara að stuðla að sjálfbærum veiðum heldur líka að lækka kostnaðinn við hvert veitt tonn. Íslenskur sjávarútvegur skilar arði. Þannig er það ekki t.d. í ESB. Reglur Evrópusambandsins eða Evrópusambandsríkin gera ekki ráð fyrir því að sjávarútvegurinn þar skili arði. Þar eru hins vegar önnur sjónarmið í gangi. Þar eru hálfgerð félagsleg sjónarmið í gangi. Mjög margir aðilar starfa í greininni en eru ekki á háum tekjum og það koma til umtalsverðir ríkisstyrkir í því kerfi. Mér finnst það umhverfi ekki spennandi. Ég vil ekki að við Íslendingar hverfum í þá átt.

Mér sýnist, frú forseti, að hér sé verið að reyna að gera tilraun til þess að fara í þá áttina. Þar með er verið að kippa rótunum og grundvellinum undan íslenska sjávarútvegskerfinu sem er bæði sjálfbært og hefur það í för með sér að greinin er arðsöm. Ég hef miklar áhyggjur af þessari tilhneigingu og fyrirætlunum ríkisstjórnarflokkanna að fara hina svokölluðu fyrningarleið.

Sjávarútvegurinn skilar miklum tekjum, bæði í formi skatta og einnig í formi veiðileyfagjaldsins. Miklar gjaldeyristekjur skapast vegna hinnar sterku stöðu sjávarútvegsins. Við eigum ekki að kippa burt grundvellinum undan þessu gulleggi okkar, fjöreggi okkar. Ég hef áhyggjur af því hvers vegna svo er komið á þessum tímum þegar þetta er ein sterkasta stoðin í samfélaginu. Vilja menn virkilega stefna á þá átt að byggja hér upp kerfi sem líkist því sem er úti í Evrópu? Er það hugsunin? Að hafa kerfið þannig að of margt fólk vinni fyrir of litlum tekjum, fylla kerfið af ríkisstyrkjum og fara í þá áttina? Ég segi nei, frú forseti. Þess vegna líst mér ekki á þessa vegferð og þá vísbendingu að stefnu sem birtist í þessu frumvarpi.

Það eru fáir hv. þingmenn Vinstri grænna í þingsalnum nú en ég óska engu að síður eftir skýringum á fyrstu spurningu minni varðandi það hvernig þetta frumvarp samræmist náttúruverndarstefnu þeirra og hvet þá enn og aftur að koma og ræða aðeins við mig um þetta mál, en það virðist vera afskaplega erfitt, frú forseti, að fá hv. þingmenn stjórnarliðsins til þess að taka þátt í málefnalegri umræðu um þetta. Ég vil reyndar undanskilja hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem er formaður sjávarútvegsnefndar og eins Helga Hjörvar, sem hefur töluvert blandað sér í umræðuna, sem eru bæði þingmenn Samfylkingarinnar.

Frú forseti. Ég vil að við hér á þingi förum að einbeita okkur að því að leysa þau vandamál sem tengjast efnahagshruninu, förum að einbeita okkur að því að leysa skuldavanda heimilanna, förum að einbeita okkur að því að koma hjólum atvinnulífsins af stað, en hættum að hræra í því umhverfi sem sjávarútvegurinn stendur í. Við verðum að búa grundvallaratvinnugreinum okkar þannig starfsskilyrði að þær geti starfað, vaxið og dafnað en við höldum greininni ekki í þeirri gríðarlegu óvissu sem stefna ríkisstjórnarinnar, sem kallast að fara í átt til fyrningar, en hefur hins vegar hvergi verið útfærð nema hér í þessu frumvarpi, virkilega stefnir að. Vegna þess, frú forseti, að það að halda fólki í óvissu er það versta sem við gerum, hvort sem þar er verið að tala um sjávarútveginn sem grundvallaratvinnugrein okkar eða heimilin í landinu.

Ég óska eftir því, frú forseti, að hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem ég held að sé einhvers staðar í húsinu, ég sá honum bregða fyrir áðan, útskýri fyrir okkur hvort ætlunin með þessum aðgerðum sé virkilega sú að hverfa í átt til félagslegs kerfis í sjávarútvegi eða hvort það sé ætlunin að halda sig áfram við það að hér sé byggt á markaðssjónarmiðum. Hvort er það, frú forseti? Þetta er ekki skýrt, óvissan er algjör, en vísbendingarnar um hvert skuli stefnt liggja fyrir í þessu frumvarpi.