Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 14:56:11 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir það með mér að hann hafi samúð með þeim sem hugsanlega lenda í því að fá úthlutað veiðiheimildum sem þeir geta sannanlega ekki nýtt. Ég velti því fyrir mér í mikilli einlægni hvort það geti verið, eins og gerist stundum og er engum sérstökum að kenna, að þegar menn fjalla um málin í einstökum þingnefndum komist menn kannski að þeirri niðurstöðu að vilja leysa málin og ræða þau efnislega.

Nú þekki ég mjög vel starfið í hv. fjárlaganefnd. Þar náum við sem þar sitjum afskaplega vel saman um ákveðin málefni en það er oft þannig að ekki er sjálfgefið að svo sé alls staðar. Eins og ég sagði í upphafi, þá er ég ekki að kenna neinum einstökum um það. Ég held í raun og veru að það sé ákveðinn galli að menn geri þetta með þessum hætti.

Aðeins út af karfanum. Það er klár krafa frá Hafrannsóknastofnuninni um að vilja skilgreina karfann, skilgreina kröfuna um það hvað veitt er úr hverjum stofni, það er alveg skiljanlegt. En við skulum líka rifja upp að þegar menn voru að veiða úthafskarfa fyrir nokkrum árum þá veiddu menn oft fullt af djúpkarfa. Síðan gerðist það að svokallaður úthafskarfi, sem var að stórum hluta til djúpkarfi, synti norður með ströndinni og hvernig var þá skiptingin á aflanum? Hún var með þeim hætti að þeir sem veiddu í botntroll fóru að veiða djúpkarfa, þeir sem veiddu í flottroll fóru að veiða úthafskarfa, hlið við hlið. Menn sjá því rökvillurnar í þessu.

Líka kemur krafa frá stórútgerðinni um að skipta djúpkarfa og gullkarfa upp með þessum hætti, en það sem er hættan í þessu er að við þurfum að klára þetta inni í nefndinni til þess að við setjum einmitt ekki fyrirtæki — ég nefndi sérstaklega eitt slíkt áðan — í óvissu um framtíðina. Þess vegna er svo mikilvægt að menn klári hlutina og segi: Við skoðum þetta ekki seinna því að við höfum öll færi á því að klára málið nú í skynsemi og ætlum ekki að gera það á morgun sem (Forseti hringir.) við getum gert í dag.