Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:16:13 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Heldur þótti mér hv. þm. Ögmundur Jónasson seilast langt þegar hann fór að gagnrýna ríkisstjórn sjálfstæðismanna á undanförnum árum fyrir meðferð hennar á Öryrkjabandalaginu og öryrkjum í landinu. Öryrkjabandalagið og öryrkjar sáu sig knúna til að koma hingað og leggja blómsveig að dyrum Alþingishússins sem minnisvarða um þann mesta hroka sem þeim hefur verið sýndur af stjórnsýslunni á síðustu árum og það gerðist í þessum mánuði eða síðasta mánuði. Mér fannst heldur langt seilst og menn eiga ekki að kasta grjóti úr glerhúsi.

Grundvallaratriðið í því sem við ræðum þegar við ræðum málefni sjávarútvegsins er á hversu hagkvæman hátt við náum að reka hann. Þetta hlýtur allt í grundvallaratriðum, virðulegi forseti, að snúast um það. Um það verður ekki deilt að á Íslandi er rekinn einhver hagkvæmasti sjávarútvegur í heimi.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi það áðan að sjálfstæðismenn berðust fyrir markaðsvæddu sjávarútvegskerfi eða sjávarútvegsstefnu, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, vegna þess að við höfum um tvær leiðir að velja í sjávarútvegskerfi okkar, félagslegt kerfi og markaðslegt kerfi. Segja má að Evrópusambandið reki félagslegt kerfi þar sem skattfé borgaranna er notað til að niðurgreiða fjölda starfa og fjölda skipa svo nemur hundruðum milljarða á ári og á meðan rekum við kerfi sem er markaðsvætt og skilar miklum arði til þjóðarbúsins, um það snýst þetta í grundvallaratriðum og það var kvótakerfið sem varð til þess að við fórum að sjá breytingar í hagkvæmnisátt í sjávarútvegi. Útgerðarmenn á þeim tíma stóðu gegn þessu og voru hundóánægðir með að fá yfir sig þetta kvótakerfi. Af hverju? Það var verið að rýra möguleika þeirra á því að vinna. Það var verið að takmarka atvinnu þeirra og atvinnufrelsi en það var gert af illri nauðsyn. Það var gert vegna þess að við vorum að ofsækja fiskimiðin og þetta gat ekki gengið svona til frambúðar. Framsalið sem var sett á í tíð vinstri flokkanna hefur síðan verið ákveðinn ásteytingarsteinn í þessu kerfi og vinstri flokkarnir vilja helst ekki kannast við að hafa komið þessu kerfi á, sem þó er af fræðimönnum okkar og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands talið einn af hornsteinum hagkvæmni kerfisins.

Það er allt of seint núna að reyna að breyta þeirri ákvörðun sem var tekin upp úr 1990 vegna þess að þeir sem hafa unnið í kerfinu frá þeim tíma hafa fylgt þeim leikreglum sem vinstri flokkarnir settu og vilja svo ekki kannast við. Það er talað um að arðurinn í sjávarútvegi sé mikilvægastur og hann verði að liggja hjá þjóðinni. Ég skil aldrei þessa nálgun. Hvar getur arðsemi í sjávarútvegi legið frekar hjá þjóðinni heldur en í arðsömum sjávarútvegsfyrirtækjum, í arðsömum veiðum og vinnslu sem skilar þjóðarbúinu sem mestum útflutningstekjum? Eru þingmenn meirihlutaflokkanna á þingi sannfærðir um að almennt séð sé allt of mikill hagnaður í þessari grein? Er það málið? Eru þau fjölmörgu fjölskyldufyrirtæki og einstaklingsfyrirtæki úti um allt land, sem eru í meðalstórum og litlum útgerðum, að bera allt of mikið úr býtum fyrir langan og erfiðan vinnudag og harða sjósókn? Ég held ekki. Ég held að fólk sé að fá eðlilegan arð af vinnu sinni, af framlagi sínu. Þá er þetta alltaf spurning um þær sanngjörnu leikreglur sem þessir þingflokkar settu á sínum tíma.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefnir það til sögunnar að nýlega hafi fyrirtæki í kjördæmi hennar verið selt og eigandinn hlaupið burtu með þrjá milljarða og skapað mikið atvinnuleysi og óvissu í framhaldinu. Þrír fjórðu hlutar af þeim kvóta sem það fyrirtæki seldi urðu eftir í kjördæminu. (Gripið fram í.) Það er víst rétt, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Urðu eftir, ekki á Flateyri nei, en í kjördæminu, á Vestfjörðum og með þeim hugmyndum sem þessi ríkisstjórn og þessir stjórnarflokkar hafa um breytingar á sjávarútvegskerfinu er verið að setja í uppnám það fólk sem keypti þann kvóta til að halda honum í byggðarlaginu, fólk sem spilaði eftir leikreglum sem þessir sömu flokkar settu og treysti því að það gæti fengið vinnufrið og byggt áfram upp fyrirtækjarekstur sinn og staðið við skuldbindingar sínar. Það er verið að setja allt þetta fólk í uppnám. Sú ósátt sem ríkir í samfélaginu er að mínu viti að mörgu leyti vegna þess að víða er takmarkaður skilningur á því út á hvað þetta gengur, því miður. Það er auðvitað okkar þingmanna að reyna að koma þessum rétta skilningi á. Það er auðvitað okkar verk líka að reyna að leita sátta og þess vegna var þessi nefnd skipuð til að fara ofan í breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og um það skapaðist víðtæk sátt og allir hagsmunaaðilar og allir flokkar á þingi eiga aðild að þeirri nefnd.

Flestir þessara aðila hafa hvatt hæstv. sjávarútvegsráðherra til að hverfa frá þeim hugmyndum sem hann leggur fram með þessu frumvarpi og beðið um að þessari nefnd sé gefinn friður til að vinna. Ég skil ekki af hverju það er ekki leið sem við getum farið. Ég er ánægður með að heyra það hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni og hv. þm. Atla Gíslasyni að skilningur á ákveðnum ágreiningsmálum í þessu frumvarpi er að vaxa, að það þurfi að leiðrétta og menn eru farnir að tala um það að við þurfum að setjast niður á milli 2. og 3. umr. og reyna að ná sáttum um ágreiningsmál eins og skötuselinn og karfann. Það er vel en ég held að við ættum að ná sátt um að leggja þetta til hliðar vegna þess að ég sé ekki af hverju okkur liggur svo mikið á, hvað það er í þessu frumvarpi sem liggur svo mikið á. Við getum þá kannski haft sem b-leið að taka stærri ágreiningsmálin út fyrir sviga og keyra í gegn aðrar breytingar í þessu frumvarpi sem við getum náð sátt um og er kannski ekki eins mikill ágreiningur um á milli hagsmunaaðila og annarra sem að málum koma.

Ég vil taka undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að það verði að stíga varlega til jarðar en ekki er verið að stíga varlega til jarðar þegar svo mikill ágreiningur er um eitt mál. Það er ekki verið að því. Það er ekki verið að leita sátta. Í þessari umræðu hefur oft verið reynt að draga það til að samtök stærri útgerða, LÍÚ, sé einhver grýla og reynt er að svelta mál í umræðunni með því að draga það að sægreifarnir, sem sumir nefna það fólk sem er með stærri útgerðir landsins, stýri allri umræðu og séu stærsti hagsmunaaðilinn. Það má vel vera að þeir séu það í tonnum en miklu fleiri hafa hagsmuni af þessu í öllum meðalstóru og litlu útgerðunum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að raska ekki ró þeirra við þær erfiðu aðstæður sem eru í samfélagi okkar í dag. Við þurfum á því að halda að sjávarútvegurinn verði áfram öflugur vettvangur og öflunaraðili fyrir þetta samfélag. Ég dáist að kjark sjávarútvegsráðherra þegar hann fer í skötuselshækkunina. Hún er bara allt of mikil. Ég vil hvetja hann til að skoða þá sömu aðferð gagnvart öðrum tegundum til að leysa þau mál sem eru að skapast í verstöðvum landsins.