Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 17:00:13 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru afskaplega áhugaverð lokaorð hjá hv. þingmanni. Sett var sérstök sáttanefnd til að ná sátt en það stoppar ekki það að menn munu keyra mál í gegn þó að mikið ósætti sé um þau. Ég verð að viðurkenna að þetta er einhver speki sem er mjög erfitt, held ég, fyrir flesta að átta sig á. Það er spurning hvað sáttanefndin á að ræða um ef það er ekki nákvæmlega það sem ósættið er um. Það væri ágætt að fá skýringar á því hvað það er nákvæmlega.

Varðandi skuldsetningu er það þannig, virðulegi forseti, að ef við værum bara að tala um skuldsetningu í sjávarútvegi væri leikur einn fyrir okkur að taka á þessu. Ég er að reyna að komast til botns í því hvað er að gerast í bönkunum í gegnum viðskiptanefnd. Það er augljóst, eins og allir vita, að 70% af íslenskum fyrirtækjum, virðulegi forseti, þurfa á einhvers konar fyrirgreiðslu eða aðstoð að halda í tengslum við skuldamál sín. Það að koma og pikka út sjávarútveginn og ætla að ganga á milli bols og höfuðs á honum út af skuldsetningu, þá vitum við hvað er næst. Þá hljóta menn að ganga í allar aðrar atvinnugreinar. Ef rökin eru þau að menn hafi notað viðkomandi fyrirtæki til að fjárfesta í óskyldum atvinnurekstri, sem svo sannarlega hefur gerst í einhverjum mæli í sjávarútvegi, þá á það ekki bara við umrædda grein. Þá væri vandinn ekki eins og hann er í dag. Ég hélt að þetta væri eitthvað sem allir vissu.

Sátt um eignarhaldið, það verður aldrei sátt um það að sjávarútvegurinn standi ekki undir sér og það mun koma beint niður á okkur. Það verður ekki sátt um það við þessar erfiðu aðstæður að teknar séu þær atvinnugreinar sem skila hvað mestum gjaldeyristekjum þegar við þurfum hvað mest á þeim að halda og reyna að ganga til bols og höfuðs á þeim og ekki getur verið sátt um það að nýta ekki sáttanefndir.