Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. febrúar 2010, kl. 14:35:16 (0)


138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér sjálfsagður hlutur og nauðsynlegt að skipta upp leyfilegum heildarafla karfa í gullkarfa og djúpkarfa. Það er ekki mikill ágreiningur um það. Aðferðafræðin sem hér er valin er hins vegar afleit. Hún mun þýða það að ýmsar útgerðir sem ekki eiga möguleika á því að veiða djúpkarfa munu fá úthlutað aflaheimildum í djúpkarfa. Þá munu hefjast mikil skipti á aflaheimildum þar sem sá sem ekki hefur möguleika á að veiða djúpkarfann þarf að eiga viðskipti við þann sem hefur þann möguleika.

Það er ekki skynsamleg leið. Það á að vinna þetta mál betur. Það á að reyna að átta sig betur á því hver hin leyfilega veiðireynsla er í hvorri tegundinni fyrir sig. Við höfum óskað eftir því margoft í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd og gerðum það raunar líka á sl. sumri. Það þarf þess vegna að vinna þetta mál betur og í betri sátt, það er hægt. Það er óskynsamlegt og þvergirðingsháttur að halda þessu ákvæði til streitu en við munum greiða atkvæði gegn þessu máli eins og það er lagt fram af ríkisstjórninni.