Dómstólar

Þriðjudaginn 23. febrúar 2010, kl. 15:31:03 (0)


138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna þeirri umræðu sem hér á sér stað og mættum við ræða um fleiri mál á þeim nótum sem við gerum nú. Það er ákveðinn samhljómur þvert á flokka, þó að menn geti að sjálfsögðu greint á í þessu mikilvæga máli sem snýr að nýskipan mála varðandi skipan dómara við Hæstarétt. Þetta mál er til þess fallið að mínu viti, ef við náum góðri lausn í því, að auka tiltrú fólks á ríkisvaldið. Það er þrískipt og hér erum við að ræða um mikilvægan hlut þess sem eru sjálfir dómstólarnir. Mig langar að hæla hæstv. dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur fyrir góða vinnu í þessum efnum og það hvernig hún hefur sett málið fram. Menn hafa talað fordómalaust í þessari umræðu og eru tilbúnir að skoða alla þessa þætti og ég er á því að þetta sé eitt af þeim forgangsverkefnum sem við eigum að hafa í huga þegar við endurmetum grundvallarstjórnskipulag okkar. Reyndar töluðum við framsóknarmenn fyrir því í aðdraganda síðustu kosninga að við ættum að hleypa þjóðinni að því að móta okkar framtíð með því að koma á fót stjórnlagaþingi. Þrátt fyrir mikla umræðu á vettvangi þingsins náðust þær breytingar því miður ekki fram þannig að stjórnlagaþing yrði sett á með skuldbindandi hætti, þ.e. að það hefði meiri völd en nú stefnir í að það hafi.

Mér finnst mjög mikilvægt á þeim tímum sem við göngum nú í gegnum að almenningur eigi aðkomu að því að móta framtíðarfyrirkomulag íslensku stjórnarskrárinnar sem aldrei hefur verið skoðuð í heildarsamhengi. Við þekkjum deilur sem hafa verið í samfélagi okkar á undangengnum árum, sérstaklega um skipan hæstaréttardómara, þar sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki að öllu leyti farið eftir ráðgefandi nefnd sem hefur metið hæfustu einstaklingana. Þess vegna fagna ég þeirri hugsun sem kemur fram í þessu frumvarpi að ef hæstv. viðkomandi dómsmálaráðherra og viðkomandi dómnefnd eru ekki sammála um hver sé hæfastur af umsækjendum þá komi til kasta Alþingis að skera úr um það hver verði skipaður dómari hverju sinni.

Ef við gefum okkur það og málum upp þá mynd að viðkomandi hæstv. ráðherra sé hluti af mjög traustum meiri hluta og samhentri ríkisstjórn á vettvangi Alþingis og með meiri hluta atkvæða þar þá finnst mér málefnalegt sjónarmið að þetta ákvæði sé einungis til málamynda ef einungis rétt rúmur helmingur þingmanna getur staðfest þessa gjörð ráðherrans. Ég mælist því til þess að í vinnu nefndarinnar skoði menn að taka upp ákvæði sem kveða á um aukinn meiri hluta til að tryggja að við þessa ákvörðun ráði ekki einungis hrein sjónarmið meirihlutastjórnarinnar ríkjum heldur sé mikill þingmeirihluti á bak við ákvörðun hæstv. ráðherra ef af þessu yrði. Ég held að við verðum að temja okkur í auknum mæli vinnubrögð í þeim anda, þessarar hugsjónar um að reyna að ná sem víðtækastri sátt um málin frekar en að naumur meiri hluti geti í hvert og eitt sinn stuðlað að meiri breytingum á samfélagi okkar. Við höfum talað fyrir því eftir hrun og ég vil meina að margir stjórnmálamenn í öllum flokkum séu okkur sammála um að við þurfum að iðka meira samvinnustjórnmál þar sem menn vinna þvert á flokka að úrlausnum mikilvægra mála. Ef við samþykktum þetta óbreytt þannig að naumur þingmeirihluti gæti tekið ákvörðun sem þessa finnst mér það í ljósi forsögunnar ekki í anda þeirra stjórnmála sem almenningur kallar eftir.

Ég kalla eftir því að vinna nefndarinnar við þetta mikilvæga mál verði vönduð og ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að það er mikilvægt að sem flestir aðilar úr samfélaginu komi að því að veita umsögn um þetta mikilvæga mál, ekki bara lögfræðingar eins og hv. þingmaður sagði, því hér erum við vonandi að stíga skref í þá átt að auka enn frekar traust á dómstólum landsins. Það veitir svo sannarlega ekki af því, svo ég tali ekki um ef við lítum okkur nær, á Alþingi Íslendinga eða framkvæmdarvaldið. Þess vegna er best að menn reyni að gera það í eins víðtækri sátt og hægt er. Ég ítreka enn og aftur það sjónarmið framsóknarmanna og stefnu okkar sem hefur verið allt frá hruni, þar sem við horfumst ekki bara í augu við efnahagslegt hrun heldur beinlínis siðrof í íslensku samfélagi, að íslenska þjóðin geti komið með beinum hætti að ákvarðanatöku er snertir grundvallarplagg eins og stjórnarskrána með því að kalla saman stjórnlagaþing. Ég minni á að stjórnmálamenn flestra flokka hafa lofað stjórnlagaþingi í einni eða annarri mynd og þess vegna er mikilvægt — og ég sé að hv. formaður allsherjarnefndar er í þingsalnum — að því máli verði flýtt þannig að almenningur sjái að það sé raunverulegur vilji okkar þingmanna að fela fólkinu ákveðið vald varðandi að mynda sýn um það hvernig við viljum móta íslenskt samfélag til framtíðar. Eins og síðustu mánuðir hafa sýnt okkur þá veitir ekkert af að endurmeta ýmis mál í þeim efnum. Þetta frumvarp er hluti af því og ég lýsi því yfir að við framsóknarmenn munum vinna af heilindum að framgangi þessa máls enda er það mikilvægt. Enn og aftur ítreka ég þakkir til hæstv. ráðherra sem ég gæti vel hugsað mér að hafa innan veggja Framsóknarflokksins því vinnubrögð hennar á vettvangi þingsins hafa verið mjög til fyrirmyndar og mættu aðrir hæstv. ráðherrar taka hana sér til fyrirmyndar.