Tekjuskattur

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 14:07:02 (0)


138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við erum að ræða um kyrrsetningu eigna og ég fagna því að þetta frumvarp komi hér fram. Ég sit í efnahags- og skattanefnd þingsins sem mun væntanlega fara ítarlega yfir þetta mikilvæga mál.

Megininntak þessa frumvarps er að stjórnvöld geti kyrrsett eignir ef grunur er um, og rökstuddur væntanlega, að aðilar hafi skotið eignum undan skatti. Í kjölfar efnahagshrunsins er gríðarlegt álag á þeim stofnunum sem hér um ræðir. Hér er verið að tala um skattrannsóknarstjóra og tollstjórann. Fyrsta spurningin til hæstv. ráðherra er: Með hvaða hætti hafa menn treyst þessar stofnanir í sessi? Það er mikið álag á þeim. Hafa menn gert það með auknum fjárframlögum til stofnananna? Ná þær að sinna hlutverki sínu í dag í ljósi umfangsins? Við vitum að það er mjög mikið því að það er kaótískt ástand í gangi í kjölfar efnahagshrunsins. Þess vegna er mikilvægt að þessum stofnunum verði gert kleift að standa undir því hlutverki sem þeim er falið, m.a. með þessu frumvarpi.

Það er líka mikilvægt að menn gæti hófs í aðgerðum að þessu leyti, án þess að ég sé nokkuð að draga dul á nauðsyn þess að þessar stofnanir fái heimildirnar ef um rökstuddan grun er að ræða, vegna þess að ég hef lagt þann skilning í það sem gerst hefur í íslensku samfélagi á undangengnum mánuðum að þar orki margt tvímælis. Við þurfum í þessum efnum eins og á öðrum sviðum samfélagsins að skoða þessi mál til hlítar.

Það sem ég hef áhyggjur af hér og svo sem ekkert rökstutt í því, ég segi það nú við hæstv. ráðherra, er einfaldlega umhverfi þessara stofnana, að þær nái ekki að sinna þessum hlutverkum sínum.

Setjum þetta í víðara samhengi um starfsemi skattsins almennt. Nú fyrir áramót var lögum um virðisaukaskatt, skatt á fyrirtæki og einstaklinga breytt í grundvallaratriðum. Starfsmenn skattsins vöruðu við því að koma slíkum breytingum á þannig að ég velti fyrir mér í ofanálag við þetta hvort skatturinn sinni því mikla álagi sem er á hann, sem fylgir m.a. þeim gríðarlega miklu breytingum sem löggjafinn réðist í á örstuttum tíma fyrir áramót við skattalagabreytingar.

Ég segi það með opnum huga að ég vil skoða þetta mál mjög vandlega. Ég tel líka að efnahags- og skattanefnd eigi að fara yfir það með fulltrúum frá þessum stofnunum og skattsins almennt að skatturinn sinni því hlutverki sem hann á að sinna í dag og hvort hann hafi aðstæður til þess. Það er um mjög mikla fjármuni að ræða sem geta legið í skattundanskotum. Það ætti hæstv. fjármálaráðherra að þekkja best. Mig minnir að tillögur stjórnarandstöðu við fjárlagagerð hafi í nokkuð mörg ár verið á þann veg að auka skatteftirlit sem átti að skila svo og svo miklum peningum. Það væri því áhugavert að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra hvernig þessi mál standa.

Þegar maður heyrir fréttir um að engu máli hafi enn verið vísað til skattrannsóknarstjóra frá sérstökum saksóknara veltir maður fyrir sér hvort skattrannsóknarstjóri hafi eftir allan þennan tíma meira tekið almennt upp mál hjá sér. Standa þeir aðilar sem eiga að rannsaka hrunið og þá atburði sem gerðust í hruninu og orka tvímælis nægjanlega vel að vígi gagnvart þessu risavaxna verkefni sem þetta efnahagshrun er allt saman með öllum þeim fylgikvillum sem voru í aðdraganda þess og í framhaldi af því? Það væri forvitnilegt að heyra frá fjármálaráðherra hvort hann telji aðstæður sérstaka saksóknarans með þeim hætti að hann hafi nægileg fjárráð til að sinna því mikilvæga hlutverki sem hann væntanlega gerir af öllum lífs og sálar kröftum eins og sakir standa nú.

Mér finnst það hljóma mjög einkennilega, líkt og heyrst hefur, að ekkert einasta mál hafi enn borist til skattrannsóknarstjóra frá þessu embætti sem á að gegna lykilhlutverki í því að rannsaka hrunið og alla þá atburði sem í því gerðust sem við mörg hver eigum mjög erfitt með að sætta okkur við að hafi átt sér stað. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur í endurreisninni, fyrir okkur sem samfélag, að komast að því sem gerðist þarna í raun og veru, kryfja málin til mergjar, en til þess verða viðkomandi stofnanir að vera í stakk búnar til að gera það með sómasamlegum hætti. Án þess að ég hafi nokkurn rökstuðning fyrir spurningu minni finnst mér nauðsynlegt í þessari umræðu að við veltum þeim málum upp hvort skatturinn í landinu sé í stakk búinn til að sinna hlutverki sínu nægilega vel í ljósi þessara gríðarlegu breytinga sem við gerðum á skattkerfinu og svo núna þess hlutverks sem embættum tollstjóra og skattrannsóknarstjóra er falið með þessu. Er verið að treysta grundvöllinn? Ég held að það sé nauðsynlegt í ljósi umræðunnar í samfélaginu að við skiptumst aðeins á skoðunum um þessi mál.

Svo lýsi ég því yfir að ég tel að efnahags- og skattanefnd eigi að fara yfirvegað yfir þetta mál. Hér er um mikilvægt mál að ræða og auk þess verðum við að gæta líka fyllstu sanngirni, þetta má ekki fara út í neinar öfgar á hvorn veginn sem er.