Tekjuskattur

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 14:20:37 (0)


138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að ég hugsa að fjárhagslegur ávinningur geti verið verulegur í þessu og hafi einhvern tímann verið þörf á því að auka tekjur ríkisins með öllum tiltækum ráðum er það nú, þannig að sá hluti málsins er að vissu leyti þakkarverður eða kærkominn. En ég tek heils hugar undir með hæstv. ráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, varðandi hinn þátt þessa máls, þ.e. að réttlætinu verði fullnægt, að rétt skuli vera rétt. Ég hef áhyggjur af umræðunni í samfélaginu — og við þurfum að vinda ofan af því og það gerum við einungis með gjörðum — að fólki finnst það vera órétti beitt og þá sérstaklega í því að ekki skuli hafa verið reynt með almennum aðgerðum að koma til móts við skuldara í landinu, einstaklinga og fyrirtæki, og á meðan er fréttaflutningur eins og við þekkjum. Ég fagna því að þessi mál séu á fullu skriði, eins og hæstv. ráðherra benti á áðan, en hafandi sagt það vil ég líka undirstrika ábyrgð okkar þingmanna í þessum efnum, þ.e. að farið sé af fullum krafti í þessi mál með réttlæti að sjónarmiði og gagnsæi eins og ríkisstjórnin hefur boðað, að okkur í minni hlutanum á Alþingi er ekki síður umhugað um að þau vinnubrögð verði í þeim anda. Ég tel að nefndir þingsins og þingið sem eftirlitsaðili ættu að skjóta á fundi með þessum aðilum til að fara yfir stöðu mála, þannig að við séum upplýst um að öll þessi mál séu í þeim farvegi sem þau eiga að vera. Það er mikið hagsmunamál fyrir þjóðina að úr þessum málum verði skorið til að fólk upplifi það svo að hér á landi gildi réttlætið og gagnsæið eins og menn hafa lofað. Ég held að við séum öll sammála þeim markmiðum, sama hvar í flokki við stöndum.