Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 15:31:54 (0)


138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[15:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum og það fjallar aðallega um siðareglur. Ég verð að taka fram strax að ég er mjög hlynntur því að menn hugleiði gott siðferði og hluti af því eru siðareglur þannig að ég er ekki á móti frumvarpinu sem slíku. Hins vegar vil ég benda á að sá sem segir oftast: Þetta er alveg satt. Það er yfirleitt lygarinn, frú forseti.

Þjóðfélagið byggir á trausti og öll samskipti fólks snúast um það að menn geti treyst hver öðrum. Öndvert við það sem margir halda, sérstaklega vinstri menn, er mjög mikið traust í atvinnulífinu, það byggir á trausti og heiðarleika því að heiðarleiki er grundvöllur trausts. Með einu óheiðarlegu bragði er hægt að eyðileggja traust á fimm mínútum sem tekur fimm ár að byggja upp aftur, því sá sem lendir í því man alla tíð hver það var sem sveik hann og það getur tekið viðkomandi mörg ár, eins og ég sagði, að byggja aftur upp það traust sem eyðilagt var. Þess vegna er heiðarleiki mjög mikilvægur eiginleiki í þjóðfélaginu, enda stendur í Hávamálum, þetta eru ekki ný sannindi en með leyfi frú forseta — ég les þetta reyndar ekki upp, ég bara kann þetta:

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Það þurfti engar siðareglur til. Menn vissu hvað orðstír var, það þurfti ekki skrifaðar reglur og það má jafnvel halda því fram að skrifaðar reglur geti verið skálkaskjól fyrir þá sem eru óheiðarlegir. Þeir geta haldið sig nákvæmlega að reglunum en farið svo í kringum þær þannig að þetta er dálítið vandmeðfarið allt saman.

Ég hef stundum velt fyrir mér verðmæti heiðarleikans fyrir einstaklinginn og verðmætið er raunverulegt. Venjulegur maður sem er almennt þekktur fyrir að vera heiðarlegur fær lán hvar sem er, honum er treyst, menn trúa honum o.s.frv. Sá sem er óheiðarlegur er sannanlega verr settur. Sá sem er heiðarlegur á ákveðna eign sem er akkúrat orðstírinn og fyrirtæki hafa líka orðstír, það er svo merkilegt. Fyrirtæki geta verið kraftmikil, ung, dugleg, sparsöm eða hvað sem er. Fyrirtæki hafa eins og einstaklingar persónulega eiginleika og þau geta líka verið óheiðarleg og fólk treystir ekki ákveðnum fyrirtækjum. Það er mjög einfalt. Ég er nærri sannfærður um það að allir hv. þingmenn vita um eitthvert fyrirtæki sem þeir treysta ekki og þeir vita líka um eitthvert annað fyrirtæki sem þeir treysta fullkomlega. Fyrirtæki er náttúrlega ekkert annað en starfsfólkið sem vinnur þar þannig að traustið er summa af viðhorfum til viðkomandi starfsmanna.

Þjóðfélög hafa líka heiðarleika. Við þekkjum þjóðfélög eins og Rússland fyrir og eftir fall. Fyrir fall var óheiðarleikinn opinber, þ.e. spilling og óheiðarleiki, og eiginlega voru vondir siðir innbyggðir í lögreglukerfið o.s.frv. og síðan voru glæpirnir, merkilegt nokk, einkavæddir. Í þessu mikla ríki sem er bæði með mikla og góða menntun, hún er virkilega góð í Rússlandi, og miklar auðlindir, var sárafátækt og er enn vegna þess að það vantar heiðarleika. Heiðarleiki er verðmæti fyrir þjóðfélag, verðmæti vegna þess að það er hægt að gera samninga fólks á milli og menn treysta þeim, þeir eru réttir. Þeir þurfa ekki að vera skriflegir, þeir geta verið munnlegir, sanngjarnir. Menn geta sagt: Ég skal kaupa af þér þennan bíl á þetta mikið. Og svo kemur í ljós viku seinna að bremsurnar voru bilaðar og hvorugur vissi það og þá segir vinurinn sem keypti: Heyrðu, ég var að kaupa bílinn, við gerðum reyndar engan samning en bremsurnar eru bilaðar. Þá segir hinn, af því að hann er sanngjarn: Ég skal slá af þessu 100 þúsund kall. Heiðarlegt og sanngjarnt þjóðfélag er verðmæti í sjálfu sér. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn standi vörð um heiðarleikann og það er ekkert undarlegt að á þjóðfundinum sem haldinn var fyrir skömmu hafi heiðarleikinn verið einmitt númer eitt. Heiðarleikinn er grundvöllur trausts og því miður, frú forseti, er það traustið sem fór í hruninu og traustið er mjög illa laskað í dag og þess vegna er mjög mikilvægt að við byggjum það upp aftur öllsömul, allir Íslendingar, ekki bara þingmenn.

Hluti af því gæti verið þessar reglur sem við erum að setja á blað, gæti verið segi ég því það er hvernig þessu er framfylgt sem skiptir öllu máli. Ef þeir sem framfylgja reglunum eru ekki heiðarlegir verður ekkert úr þessu, en ef þeir eru heiðarlegir í sjálfu sér munu þessar reglur verða góðar en þá þarf þær heldur ekki. Það er svo merkilegt. En þær geta hugsanlega veitt einhverjum sem eru svolítið tvístígandi ákveðinn stuðning.

Ég held að við höfum sjaldan verið í jafnmikilli þörf fyrir heiðarleika og einmitt núna. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Við erum með fjöldann allan af fyrirtækjum, eiginlega lungann af íslenskum fyrirtækjum, sem eru komin í ákveðið uppnám. Þau eru orðin eins og frjáls veiði, sem Þjóðverjar kalla „Freiwild“, þ.e. það getur hver sem er skotið á þetta og gómað þetta og spurningin er, hverjum eru þau seld, á hvaða verði, hvernig ferillinn við að selja þau er og það er þetta sem menn hafa verið að gagnrýna hvað mest núna. Ég hygg að ef við ekki gætum sérstaklega vel að okkur og alveg sérstaklega ríkisstjórnin og þeir sem ráða og þeir sem hafa um þetta að segja, skilanefndirnar og aðrir slíkir, þá munu menn horfa til baka á þetta hrun og tvö, þrjú árin á eftir sem mesta sóðaskap í spillingu á Íslandi ef menn ekki gæta vel að sér. Það getur líka tekist vel til og það skiptir verulegu máli að allir sem um höndla horfi mjög vandlega á dæmið utan frá og spyrji sjálfa sig á hverjum degi: Er ég að gera rétt? Er þetta heiðarlegt sem ég er að gera? Þannig að það er mjög mikið atriði að menn komi með góðar og skilvirkar reglur.

Ég hef dálítið saknað þess, frú forseti, að ríkisstjórnin sem hefur nú starfað í rúmt ár — eitt ár og einn mánuð og eitthvað betur, (Gripið fram í.) nei, það er ekki kominn alveg einn mánuður — hefur ekki mótað góðar siðareglur fyrir sölu á fyrirtækjum sem taka mið af þeim hagsmunum að gæta t.d. stjórnunarverðmætis fyrirtækis, þekkingar starfsmanna og stjórnenda, tengsl stjórnenda bæði við birgja og viðskiptamenn, sem er geysilega mikilvægt og geysilega verðmætt. Um þetta þarf að búa til reglur og það þarf líka að búa til reglur um hvernig kröfuhafarnir lækka kröfur sínar og eigendurnir sömuleiðis á móti og jafnvel niður í núll en eigendur hafi þá hugsanlega möguleika á því að kaupa fyrirtækið til baka á löngum tíma ef þeir eru traustsins verðir, ef þeir hafa góðan orðstír, eins og segir í Hávamálum. Fyrirtæki getur hugsanlega orðið verðlaust ef þeir sem þar sitja hafa ekki góðan orðstír. Eins og ég sagði, traust er hægt að eyðileggja á fimm mínútum, jafnvel á skemmri tíma og það getur tekið langan tíma að byggja það upp aftur. Þetta vil ég að menn hafi í huga. Ég tel að þessar siðareglur séu ágætar. Ég býst ekki við því að þær snúi þjóðfélaginu allt í einu á haus og óheiðarlegt fólk verði allt í einu heiðarlegt. Ég á ekki von á því vegna þess að heiðarleiki er eitthvað sem kemur innan frá og er eitthvað sem menn þurfa að skynja sjálfir að er verðmæti. Ef einhver maður telur að það borgi sig að svindla og pretta á náunganum og telur sig græða á því og sér ekki hvað hann tapar miklu á því, heldur hann því áfram.

Ég mun styðja þetta frumvarp. Ég vil að hv. nefnd sem fær það til umfjöllunar fari vandlega í gegnum það hvort breyta megi einhverju, fari sérstaklega í gegnum þá þætti sem ég nefndi í andsvari mínu áðan við hæstv. forsætisráðherra, um vildarpunktana, dagpeningana og skattfrelsi utanríkisþjónustunnar, hvort ekki sé hægt að ná þessu niður einhvern veginn vegna þess að þessi þrjú atriði og hugsanlega miklu fleiri búa til siðspillingu, búa til siðrof, t.d. dagpeningar, sá sem hagnast á þeim veit að það er ósiðlegt. Eins er með vildarpunktana. Þeir sem fara í ferðalag í sumar og njóta vildarpunkta vita nákvæmlega að þetta er ekki rétt og það er slæmt því um leið og menn eru komnir út á þessa braut er svo auðvelt að halda áfram á henni. Það er mikilvægt að menn hafi góða siði og góðar reglur í heiðri.

Sérstaklega vil ég minna á það að þeir sem segja oftast: Þetta er alveg satt eða þetta er staðreynd. Það eru helst þeir sem eru lygarar.