Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 15:42:31 (0)


138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem orðið hafa um frumvarpið þó að vissulega megi segja að þær hafi, eins og stundum gerist, farið nokkuð út fyrir frumvarpið og nokkuð út um víðan völl, um það sem mönnum liggur á hjarta og er alveg skiljanlegt. Ég geri engar athugasemdir við það að fjallað hafi verið um áætlanir í atvinnuuppbyggingu og stöðu heimila o.s.frv. Ég vil þakka síðasta þingmanni fyrir ræðu hans. Það er ekki oft sem ég er sammála málflutningi Péturs H. Blöndals en ræðan sem hann flutti var mjög góð og ég get fyllilega tekið undir margt af því sem þar kom fram. Það er alveg satt og rétt, sem var kjarninn í ræðu hans, að það sem við þurfum mest á að halda er að byggja upp það laskaða traust sem er alltumlykjandi í samfélaginu gagnvart stjórnmálamönnum, stjórnmálalífinu mjög mikið, fjármálalífinu o.s.frv. Það er mikilvæg dyggð, ekki síst hjá stjórnmálamönnum, að byggja á heiðarleika og hafa siðferðiskenndina og siðferðisvitundina á vakt í störfum sínum. Mér fannst þetta vera boðskapur þingmannsins sem ég tek mjög undir og hef talað í samræmi við það í gegnum árin.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá einum hv. þingmanni að ekki á að gera meira úr siðareglum en efni standa til. Siðareglur geta verið dauður bókstafur á blaði ef þeim er ekki framfylgt og náið og gott eftirlit haft með því að það sé gert. Ég tel að sett sé fyrir það í frumvarpinu, að það sé hugmyndin að gera það með þessari samhæfingarnefnd og með þeim ákvæðum sem eru í frumvarpinu um umboðsmann Alþingis. Ég vil taka fram að frumvarpið var unnið í mjög nánu og góðu samráði við umboðsmann Alþingis, um þann kafla sem að honum snýr, og samráð og samstarf sem þarf að vera milli samhæfingarnefndarinnar og samráð við eftirlitsembætti Alþingis, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða umboðsmaður Alþingis. Það kemur beinlínis fram, en það hefur kannski ekki verið lesið ítarlega af þeim sem um þetta spurði, hvernig hafa ætti þetta eftirlit. Það kemur fram á bls. 13, um 2. og 3. gr. Þar stendur:

„Í þessum ákvæðum frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997. Þar er tekið af skarið um að umboðsmaður Alþingis hafi það hlutverk að hafa eftirlit með siðareglum sem settar hafa verið í stjórnsýslu ríkisins …“

Af því að meira var spurt um það við hvern hefði verið haft samráð er heill kafli um það í frumvarpinu. Haft var samráð við mjög marga aðila um þetta, á bls. 18 er heill kafli um samráð. Haft var samráð við Félag starfsmanna Stjórnarráðsins, skrifstofustjóra lagaskrifstofu ráðuneytanna, fundað með umboðsmanni Alþingis og Vilhjálmi Árnasyni prófessor, sem á sæti í vinnuhóp um siðferði, en hann starfar með rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Drögin voru kynnt almenningi á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Almenningi var gefið færi á að gera athugasemdir við frumvarpið — það er kannski ekki oft sem það er gert og mætti taka það til fyrirmyndar — um það sem fram kemur í þessu frumvarpi. Ég tel því að haft hafi verið ítarlegt og gott samráð við þá aðila sem rétt og skylt var að hafa samráð við. Það er hugmyndin að þessar reglur sem á að fara að vinna, verði frumvarp þetta að lögum, verði unnar í nánu samráði við þá sem við þetta eiga að búa eins og starfsmannafélögin hjá hinu opinbera.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson setti t.d. fram ýmsar spurningar um drögin sem hér eru sett fram, að því er varðar þær siðareglur sem yrðu þá settar í framhaldi af því að frumvarpið yrði að lögum. Þetta eru bara drög, eins og hér er nefnt, og þingið getur haft öll þau áhrif sem það vill á þetta í nefndaráliti sínu og í umfjöllun um þetta mál á þinginu.

Ég vil líka nefna það, af því að verið er að tala um að siðareglur séu ekki allt — og ég tek undir það — og víða hafi verið settar siðareglur sem ekki hafa komið að gagni, að fyrir nokkrum árum voru settar siðareglur um viðskiptalífið, sem viðskiptalífið setti sér sjálft, og ég held að við getum öll verið sammála um það að þær voru ekki mikils virði og þess vegna er eftirfylgnin mjög mikilvæg. Ég vil líka tala um það að Alþingi hefur áður fjallað um þetta mál. Við fjölluðum t.d. um tillögur sem ég flutti árið 1998, um bætt siðferði í stjórnsýslunni, og Alþingi samþykkti þá tillögu. Það var rituð heil bók, heil skýrsla, sem fékk mikla útbreiðslu sem Páll Hreinsson stýrði. Það eru 11–12 ár síðan. Það hefur ekkert verið gert með þær tillögur sem liggja fyrir í þeirri skýrslu. Ég held að það sé góð og gild spurning að spyrja hvort þetta hrun hefði orðið með þeim hætti sem það varð ef unnið hefði verið í samræmi við þá skýrslu, um bætt starfsskilyrði í stjórnsýslunni, ef fyrir 11–12 árum hefði verið unnið við ýmsar úrbætur sem þar voru settar fram.

Eins og ég nefndi í framsögu minni er ég að láta vinna tillögur og hugmyndir um það að bæta ýmsa starfshætti innan Stjórnarráðsins og þeirri skýrslu verður væntanlega skilað 1. apríl. Þar verður tekið á ýmsu af þeim ábendingum sem koma fram í umræddri skýrslu Páls Hreinssonar og m.a. um það sem hv. þingmaður spurði um, um ráðningar í stjórnkerfinu. Það er full ástæða til að taka á þeim málum. Ekki er alltaf auglýst í samræmi við það sem væri skylt og rétt að gera og ég geri ráð fyrir að þær tillögur og hugmyndir sem þarna verða settar fram, og verður framfylgt, muni skapa miklu meiri formfestu að því er varðar ráðningar og auglýsingar í stöður hjá stjórnsýslunni.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega 40 ráðningar í störf sem ekki hefðu verið auglýst — ég man ekki yfir hvaða tímabil það var — þá var eðlileg skýring á ýmsu af þessu, fæðingarorlof, veikindi, tímabundnar ráðningar o.s.frv., sumarafleysingar, sem er kannski ekki rétt að tíunda vegna þess að umboðsmaður hefur nýlega verið að setja fram að einnig beri að auglýsa sumarafleysingastörf. Ég er því að vona að meiri formfesta komist á þetta þegar hugmyndir þessarar nefndar koma fram og það verði margt annað sem þessi nefnd mun setja fram til þess að bæta starfsumhverfi í stjórnsýslunni. Það er því verið að vinna að ýmsu að því er þetta varðar.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á ýmislegt annað í þessum drögum að siðareglum sem ég tel ekki ástæðu til að fara náið ofan í. En ég vil þó segja það að siðareglur eru þess eðlis að stundum eru þær matskenndar. Það er ekki hægt að setja nákvæmlega á blað allt sem heitið getur og upp getur komið að því er varðar ýmislegt sem maður gæti frekar látið falla undir siðferðiskennd viðkomandi sem ber ábyrgð innan stjórnsýslunnar og hvar sem er. Það er stundum það sem gildir, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, heiðarleiki og annað. Það er ekki hægt að setja nákvæmlega á blað í siðareglum allt sem getur komið upp en þær eiga að vera ákveðinn rammi til þess að fylgja eftir.

Hv. þingmaður spurði hér, ég skrifaði það hjá mér: Hvernig á að fylgjast með útgjöldum vegna ferðalaga, veisluhalda og gestamóttöku sem ber að takmarka, eins og hér er verið að tala um, við það sem nauðsynlegt er vegna skyldna embættisins? Við höfum náttúrlega eftirlitsstofnun eins og Ríkisendurskoðun sem á að fylgjast með þessu og síðan finnst mér að ráðherrar sjálfir og forstöðumenn stofnana eigi að hafa þessar skyldur og þess vegna er ágætt að setja þetta inn í siðareglurnar og takmarka þetta eins og kostur er. Ég get nefnt það við hv. þingmann að það er vel hægt að spara þar og takmarka miklu meira en gert hefur verið. Ég vil nefna það að á þessu rúma ári sem ég hef verið í forsætisráðuneytinu hefur sparnaður á milli ára í ráðuneytinu, að því er varðar risnukostnað og ferðakostnað, verið 70%. Ég nefni það sem dæmi um að vel er hægt að takmarka þetta og spara þarna og byggja miklu meira á því sem er nauðsynlegt og takmarka þennan útgjaldalið.

Hv. þingmaður nefndi einnig hvernig ráðherrabílstjórar eru notaðir. Ég held að það sama eigi við um það og svo margt annað í siðareglum að það byggist á heiðarleika og siðferðiskennd þess sem er í ábyrgðarstarfi. Nú eru engin takmörk á því hvernig nota megi ráðherrabílstjóra en það er verið að skoða sérstaklega starfsumhverfi bílstjóranna og ég geri ráð fyrir að þessir hlutir muni koma þar upp. Það eru þó takmörk og reglur um það hvað ráðherrarnir geta sjálfir, í erindum sem heyra ekki beinlínis undir þeirra starf, notað ráðherrabílana og þar er borgaður af skattur o.s.frv. og ákveðinn kílómetranotkun þar inni. En það má sjálfsagt skoða þetta eins og margt annað.

Ég held að ég hafi svarað flestu því sem beinlínis tengist frumvarpinu en síðan var farið, eins og ég sagði, aðeins út fyrir frumvarpið og það er sjálfsagt að svara því á þessum þremur mínútum sem ég hef hér til umráða. Verkaskipting ráðuneytanna, hvernig líður því, er verið að vinna að því? Já, bara síðast þegar ég var uppi í ráðuneyti nú áðan var verið að vinna í því máli, það er á fullri ferð, þ.e. sameining ráðuneytanna. Það er rétt að ríkisstjórnin hefur sett sér það að fækka ráðuneytunum úr tólf í níu og næst á dagskrá er að sameina atvinnuvegaráðuneytin. Ég hef látið í ljós í þessum ræðustól þá von mína að samstaða geti náðst um það að flytja frumvarp um það á þessu þingi, sameiningu á atvinnuvegaráðuneytunum. Einnig er um það að ræða að styrkja umhverfisráðuneytið þannig að auðlindirnar verið þar undir, það verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Sameining á félags- og tryggingamálaráðuneytinu er líka á borðinu en það tengist nokkuð verkefnatilflutningi frá ríki til sveitarfélaga, þ.e. málefnum aldraðra og málefnum fatlaðra. Ég held að sameining á félags- og heilbrigðisráðuneytinu, eins og það er núna, án þess að flytja þessa stóru málaflokka yfir til sveitarfélaganna — það yrði allt of stórt ef þetta ætti að verða eitt ráðuneyti þannig að mér finnst það hanga nokkuð saman og við höfum verið að skoða hvenær hægt væri að tímasetja það. Síðan er þetta einnig spurning um stofnun á innanríkisráðuneyti en það var á dagskrá að lögfesta það á þessu kjörtímabili þó að það tæki ekki gildi fyrr en á næsta kjörtímabili. Allt þetta er í skoðun að því er varðar þessa þætti og ég vona að það muni skýrast á næstu vikum hver næstu skrefin verða í þessu og hvenær þau verða tekin. Ég vona að það verði sem allra fyrst.

Ekki er eingöngu verið að taka á sameiningu ráðuneytanna heldur líka sameiningu ýmissa stofnana í stjórnsýslunni. Það er langur listi yfir það sem menn eru að reyna að vinna með og komast áfram með. Þetta er ekki eitthvað sem maður bara dregur upp úr vasa, það tekur tíma að vinna þetta og það tekur líka tíma, eins og hv. þingmaður veit, að ná hagræðingu, að þetta skili sér í hagræðingu í ríkisrekstrinum. Sumir segja að á meðan verið er að koma slíkri sameiningu af stað sé það oft dýrara þegar þetta er að byrja þó að hagræðingin skili sér síðar. En mjög umfangsmikill listi liggur fyrir um ýmsar sameiningar sem eru misjafnlega langt á veg komnar en er verið að vinna í. Okkur er mjög í mun að sleppa sem best við það að láta þennan sparnað bitna á velferðarkerfinu þó að óhjákvæmilega komi svona mikill niðurskurður niður alls staðar í kerfinu. Við erum að tala um það að á tveimur árum sé niðurskurðurinn um 100 milljarðar og þarf kannski að fara í 50–60 milljarða fyrir næsta ár og einhvers staðar tekur það í. Þess vegna er okkur í mun að ná þessu fram og ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þetta.

Hv. þingmaður nefndi áætlanir sem legið hafa fyrir og sérstaklega áætlun frá því í vor, ég geri ráð fyrir að hann sé að nefna hana, um 4.000 störf. Það liggur fyrir að af þeirri áætlun hafa þegar komist til framkvæmda 2.500 störf. Það liggur fyrir og það hefur verið farið yfir það og kynnt í ríkisstjórn og kynnt opinberlega. Ýmislegt er í undirbúningi á næstu dögum eins og hv. þingmaður veit, sem við höfum verið að fara yfir hér í þingsal og í ríkisstjórn, bæði að því er varðar ýmis verkefni í fjárfestingum, í stóriðjunni, í orkumannvirkjum. Mjög mikið er fram undan að því er þau verkefni varðar og ekki síst (Forseti hringir.) ýmis verkefni sem snerta ferðamannaþjónustu o.s.frv. En nú er tími minn búinn en ég er líka komin út fyrir það frumvarp sem hér er til umræðu þó að mér hafi fundist rétt og skylt að svara eins og tíminn leyfir þeim fyrirspurnum sem þingmaðurinn var með sem ekki koma frumvarpinu beinlínis við.