Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 16:00:23 (0)


138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[16:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki alveg á takteinum þær tölur sem hv. þingmaður talaði hér um en ég vil þó ítreka að þessar aðgerðir í atvinnumálum — það voru tæplega 2.400 störf frá þeim markmiðum sem við settum okkur í mars 2009. Það voru verkefni í byggingariðnaði, nýsköpun og sjávarútvegi ásamt öðrum sem eru enn í framkvæmd, þetta voru 4.000 störf. Við erum að tala um fjárfestingu í orkumannvirkjum sem verið er að vinna með á ýmsum stigum og í iðjuverum, þær tölur nema um 400 milljörðum fram til ársins 2017. Þar erum við náttúrlega að tala um gífurlega mörg störf og ársverk.

Það er líka verið að ræða um og var rætt í ríkisstjórninni fyrir skömmu og kynnt opinberlega, sem ég bið hv. þingmann að kynna sér, þ.e. næstu skref sem verða tekin. Þar er um að ræða uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum fyrir 500–700 milljónir, undirbúningsframkvæmd við Búðarhálsvirkjun — af því að hv. þingmaður nefndi hana — stofnun fjárfestingarsjóðs til að auðvelda fjármögnun nýsköpunar- og sprotafyrirtækja á einkamarkaði, 500 verkefni um allt land í tengslum við viðhald og verðmæti, 3,6 milljarða eiginfjáraukning Byggðastofnunar — ég held að hv. þingmaður hljóti að fagna því — og skattafslátt vegna fjárfestinga í nýsköpunarverkefnum sem getur skapað um 1.000 störf og fjölmargt annað.

Síðan verður hv. þingmaður líka að athuga að það sem tafið hefur framkvæmdir er að við eigum í erfiðleikum með að fá erlent fjármagn inn í landið í ýmsar fjárfestingar sem eru í undirbúningi, það hefur tafið framkvæmdir og líka hjá sveitarfélögunum. Við vitum hver ástæðan er fyrir því og það er mál sem við vonandi leysum saman, ég og hv. þingmaður, ásamt fleirum á næstu dögum.