138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa punkta. Mig langaði aðeins að fara yfir að það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að við ætlum okkur að taka bestu löggjöfina frá öðrum löndum en ekki þessa almennu. Við viljum tryggja að hér sé besta lagalega umhverfið í þessum málum. Í Frakklandi er miðað við þrjá mánuði, það mætti kannski miða við það hér, en það er talin besta mögulega löggjöfin á þessu sviði. Þrír mánuðir eru feikilega nógur tími til að geta höfðað mál ef maður vill fara út í slíkt.

Það væri mjög gagnlegt að stofna þennan vinnuhóp sem fyrst þannig að við getum farið yfir þessi vafaatriði. Þetta er svo flókið að það væri gagnlegt fyrir þá sem láta sig þessa sýn varða að fara í gegnum málið lið fyrir lið. Ég held að okkur sé ekki til setunnar boðið. Þegar þetta verður komið í nefnd ættum við bara að stofna þennan þverpólitíska hóp. Ég hef tekið eftir því að á þessu þingi eru engir þverpólitískir hópar sem starfa að ákveðnum málefnum eða öðru slíku, en slíkt fyrirfinnst í flestum þingum heimsins. Þetta gæti kannski orðið upphafið að því að þingmenn starfi meira saman, óháð flokkum.

Varðandi samskiptavernd fer ég yfir hana í seinna andsvari, en það er gríðarlega mikilvægt að fólk skilji hvað það þýðir þegar hægt er að lögsækja þá sem hýsa gögn.