138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[15:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að koma stuttlega inn í umræðu um þau mál sem hér eru til umfjöllunar og ætla ekki að fara efnislega í þær á þessu stigi. Það gefst tækifæri til þess að gera það á vettvangi hv. utanríkismálanefndar og eftir atvikum annarra fagnefnda ef tilefni verður til að vísa þeim til frekari umfjöllunar þar. En í framhaldi af þeim sjónarmiðum og athugasemdum sem komu fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um meðferð þessara mála, er sammerkt þeim öllum þremur þingsályktunartillögum á þskj. 705, 706 og 707 sem hér eru til umfjöllunar að þær fjalla um málsmeðferð EES-tilskipana. Hæstv. utanríkisráðherra lagði áherslu á að þingið kæmi fyrr að málum en það hefur gert. Tillaga hefur verið til meðferðar um nokkurra mánaða skeið, hugsanlega nokkurra missira skeið, mætti segja, um reglur um þinglega meðferð EES-mála. Á vettvangi forsætisnefndar hefur þetta mál verið rætt og ég vil upplýsa um að þar er gert ráð fyrir því í þeim drögum að reglum sem núna eru til umfjöllunar að þingið komi mun fyrr að þessum málum en verið hefur til þess að ekki sé hægt að líta svo á að efnisleg umfjöllun hafi ekki átt sér stað um þessi atriði sem hugsanlega kalla á lagabreytingar og að fallið sé frá stjórnskipulegum fyrirvara á vettvangi Alþingis þegar málið kemur þar inn.

Þetta tel ég vera mjög mikilvægt og ég ítreka það í forsætisnefnd að vinnu við þessar reglur verði hraðað. Það má segja að núna séu þær í lokabúningi og eru til umfjöllunar í samstarfi Alþingis og utanríkisráðuneytisins. Ég á von á því að á allra næstu dögum verði tilbúin tillaga að reglum sem forsætisnefnd setur um þinglega meðferð EES-mála og að hægt verði að ganga frá þeim af hálfu forsætisnefndar hið allra fyrsta. Það mun sem sagt þýða að þegar mál eru á vinnslustigi munu þau koma, eins og hæstv. utanríkisráðherra lýsti að gert verði gagnvart ríkisstjórn, til umfjöllunar hjá utanríkismálanefnd á Alþingi og eftir atvikum öðrum fagnefndum sem viðkomandi mál heyrir undir. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart þegar málin koma síðan með formlegum hætti til umfjöllunar Alþingis.

Stundum hefur þetta verið gert þannig þegar fallið er frá stjórnskipulegum fyrirvara að það kemur ekki einu sinni tillaga til þingsályktunar heldur kemur tillaga í lagafrumvarpinu sjálfu. Þetta höfum við margítrekað gagnrýnt, að ekki sé komið með tillögu um að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara fyrr en í lagafrumvarpinu sem um ræðir. Það er að sjálfsögðu miklu betra að það gerist með þessum hætti, að fyrst komi þingsályktunartillaga eins og gert er í þeim málum sem hér eru til umræðu í dag. Fallist Alþingi á þá tillögu er að vænta lagafrumvarps á síðari stigum þar sem innleiðingin er fest í lög. Þetta er að mínum dómi betri nálgun en við höfum stundum séð. En eftir sem áður er að mínu mikilvægt að við klárum vinnu við reglur um þinglega meðferð EES-mála til að tryggja sem allra bestan undirbúning og sem allra besta umfjöllun af hálfu Alþingis um þau mál sem svona þarf að fara með samkvæmt reglum.