138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[15:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna sérstaklega síðustu orðum hv. þingmanns, það var einmitt það sem ég ætlaði að spyrja hann um í síðara andsvari mínu, hvenær hann telji að þessar reglur geti komið í framkvæmd, hvort þess sé langt að bíða, því að eins og hann er ég er orðin ansi óþreyjufull eftir að sjá þær í framkvæmd. Ég hvet hann og hæstv. utanríkisráðherra að láta þessa umsókn ekki breyta þessu verklagi vegna þess að ef það er eitthvað sem við þurfum er það að halda okkar hagsmunabaráttu áfram jafnvel þó að þessi umsókn sé komin í það ferli sem hún er nú í.

Ég tel að við eigum margt inni þarna og að við eigum að nýta öll þau tækifæri sem við höfum. Það var alltaf markmiðið að hafa reglurnar gerlegar praktískt séð þannig að það kemur ekki á óvart að verið sé að reyna að útfæra þessi sömu drög. Við lögðum okkur mikið fram um að hafa þetta þannig að við gætum gert þetta vegna þess að það kom í ljós að reglurnar höfðu verið til staðar alveg frá því að samningurinn var samþykktur, þær höfðu bara ekki verið framkvæmanlegar vegna þess að við erum svo fá og smá. Þess vegna lögðum við í það mikla vinnu í þáverandi utanríkismálanefnd að hafa reglurnar svona en okkur var þó fullljóst að þeim gæti fylgt einhver kostnaður. Því vildi ég spyrja hv. þingmann að því hvort það tefji kannski fyrir. Til að við getum uppfyllt okkar eftirlitsskyldu í rauninni, þingið, gerðum við ráð fyrir því að það voru aukin samskipti þingmanna við Evrópuþingið, við flokkahópana. Við töluðum um á einhverju stigi, ég held að það hafi verið í drögunum, að Alþingi hefði starfsmann inni á Evrópuþinginu o.s.frv. Það var kostnaður við þetta, (Forseti hringir.) jafnvel þegar þetta var sett fram fyrir þau áföll sem við höfum orðið fyrir, og því vildi ég spyrja um þetta atriði.