138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[16:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa spunnist um nánari tengsl okkar við Evrópuþingið og sömuleiðis nánari eftirfylgni og rannsókn þingsins á gerðum sem við þurfum að taka upp. Þessar umræður hafa hins vegar spunnist undir þingsályktunartillögu um afnám stjórnskipulegs fyrirvara varðandi fjármálaþjónustu en ég þakka þær eigi að síður. Ég er algerlega sammála þeim tveimur þingmönnum sem hér hafa talað um þessi efni. Ég hef löngum verið sammála því viðhorfi sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir kom með fram áðan þótt ég sé eindreginn stuðningsmaður ESB-aðildar. Það fólst í því að hún telur að það sé töluvert sem við eigum inni í EES-samningnum. Ég er þeirrar skoðunar að hægt hefði verið á undanförnum árum að nýta hann betur.

Sú afstaða mín kom t.d. fram í þeirri nefnd sem ég átti sæti í og vann að Evrópumálum undir stjórn fyrrverandi dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar. Þar var nákvæmlega í þessi mál farið og þar var m.a. lagt til að Alþingi Íslendinga yndi bráðan bug að því að rækja sitt eftirlitshlutverk betur en hefði verið gert. Árum saman var þetta þannig að málin duttu inn í þingið og mætti litlum áhuga. Þau voru lítt rannsökuð, að mér þótti a.m.k. þegar ég sat í utanríkismálanefnd, og fóru þannig tiltölulega hratt í gegn. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að benda á hluti á liðnum árum sem hefðu verið miklu ódýrari fyrir okkur ef þetta eftirlit hefði verið rækt með betri og ríkari hætti.

Ég rak mig á það meðan ég gegndi starfi umhverfisráðherra að þar höfðu bersýnilega flotið í gegn mál sem vörðuðu töluvert miklu sem íslenska þingið hefði betur skoðað út í hörgul áður en þau voru samþykkt. Ég nefni sérstaklega tilskipun um fráveitur sem kostuðu sveitarfélög mjög mikið. Ég sem umhverfisráðherra var sannfærður um að hægt hefði verið á fyrri stigum máls að hafa miklu ríkari áhrif á það mál en raunin varð, bæði með því að koma fyrr að því á sérfræðingastiginu, en ég taldi að ef þingið hefði rannsakað þetta mál rækilega á sínum tíma hefðu menn komist að því að það var ekki þörf á því að ráðast í þessar umfangsmiklu framkvæmdir eins og sveitarfélög þurftu að gera. Ég lagði að vísu mitt litla lóð á vogarskál sveitarfélaganna ásamt þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni með því að flytja frumvarp fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að endurgreiða virðisaukaskattinn á framkvæmdunum, en söm var gjörðin.

Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar og hef verið lengi að hrinda ætti hinni gömlu tillögu sem fyrst kom fram í ranni Framsóknarflokksins, að þingflokkarnir ættu að rækja með formlegum hætti tengsl sín við samsvarandi flokka á Evrópuþinginu, í framkvæmd. Ég tel að það sé nauðsynlegt, algerlega án tillits til þess hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Ég tel sem sagt að íslenska þingið geti varið hagsmuni Íslendinga með því að nota sér þær tengingar sem flokkarnir hér á Alþingi Íslendinga hafa við flokkahópana. Fulltrúar þeirra sem sætu þar inni gætu komið miklu sterkara að sameiginlegum hagsmunamálum Íslands ef þeir væru þar með sín fimm höfuð í hinum mismunandi flokkahópum. Ég tek því algerlega undir það sem kom fram hjá hv. þingmönnum áðan.

Ég fagna því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði að nú væri að koma að því að settar yrðu í gang reglur sem fela það í sér að þingið kemur miklu fyrr að lögum, tillögum og drögum að sameiginlegum ákvörðunum innan sameiginlegu EES-nefndarinnar en gerist í dag. Ég tel að þetta þurfi að gera og ég tel að þingið þurfi að hafa ef ekki smásjá þá a.m.k. stækkunargler alveg frá því að þessi mál fæðast. Ég er þeirrar skoðunar, ég tel að í því felist mikil hagsmunavörn fyrir Íslendinga. Auðvitað kostar þetta peninga. En það kostar einfaldlega að taka þátt í hinu alþjóðlega samfélagi og í þessu tilviki er hreinlega um það að ræða að kosta peningum til að gera hlutina betur. Sú tillaga sem hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar drap á áðan, um að Alþingi hefði fulltrúa eða starfsmann með einhverjum hætti hjá Evrópuþinginu, er mjög góðra gjalda verð. Ég tel að það eigi að gerast. Það kostar líka peninga að sjálfsögðu en eins og Evrópuþingið er orðið valdamikið er það alveg ljóst, hvort sem við erum innan eða utan Evrópusambandsins, að það skiptir máli að hafa fulltrúa sem fylgist með og veit hvernig vindar blása og þegar koma upp mál sem Íslendingar þurfa að láta til sín taka. Þetta veit ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem ég ber alltaf hlýjan hug til og el í brjósti mér von um að muni að lokum sjá ljósið hvað varðar Evrópu, er sammála mér um því að í þessu efni skiptir ekki máli hvort Íslendingar standa utan eða innan ESB. Þetta er einfaldlega eitt af því sem tími er kominn til að við tökum ákvörðun um. Og sannarlega mundi t.d. hv. þm. Ögmundur Jónasson sóma sér vel sem fulltrúi Alþingis Íslendinga í störfum innan Evrópuþingsins. (Gripið fram í.)