Almenningssamgöngur

Þriðjudaginn 02. mars 2010, kl. 17:41:02 (0)


138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og meðflutningsmönnum hans, hv. þingmönnum, fyrir að leggja þetta mikilvæga frumvarp fram í þinginu. Í upphafi vil ég koma þeirri ábendingu á framfæri að ég hefði kosið að hv. þingmenn Vinstri grænna hefðu leitað til þingmanna annarra flokka upp á að gerast meðflutningsmenn að frumvarpi sem þessu sem snýr að því grundvallarmáli sem almenningssamgöngur eru, þótt ekki væri nema til þess að reyna að ná meiri samstöðu á vettvangi þingsins um svona stórt mál og auka möguleika þess á að frumvarp þetta verði samþykkt, hvort sem er óbreytt eða með einhverjum breytingum sem eðlilega gerast í meðhöndlun nefndar.

Þetta mál snýr í raun og veru að jafnræði íbúanna og líka að lífsgæðum fólksins í landinu. Ég lét hugann reika þegar ég las frumvarpið og ef við byrjum á höfuðborginni heyrum við, ef við tökum umhverfisþáttinn, reglulega fréttir um að svifryksmengun sé langt yfir leyfilegum mörkum. Alls kyns umhverfisþættir sem hafa þau áhrif að loftið sem fólk andar að sér á degi hverjum og sérstaklega á þeim dögum þegar stillt er í veðri er ekki eins heilnæmt og það gæti verið ef við mundum haga skipulagi borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins með öðrum hætti. Þess vegna er ágætislausn eða atlaga að þeim vanda að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, gera þær að fýsilegri kosti og fækka þannig bílum sem er ekið á degi hverjum degi um götur borgarinnar. Fyrir utan það valda þeir atburðir sem hafa átt sér stað í efnahagslífi þjóðarinnar einfaldlega því að fólk getur ekki átt 2–3 bíla á hverju heimili og menn þurfa að horfa meira í budduna en áður fyrr þannig að þessi valkostur, almenningssamgöngur, ætti að verða fýsilegri í dag en fyrir nokkrum árum þegar fólk hafði meira á milli handanna.

Þetta snýr sem sagt að mörgum þáttum. Einn er fjárhagsþátturinn, þ.e. það er rökstutt í þessu frumvarpi að auknar almenningssamgöngur séu þjóðhagslega hagkvæmar og er þá bent á minna slit á vegum og fleira í þeim efnum sem er allt saman satt og rétt.

Ef við horfum aðeins út fyrir borgarmörkin er ekki hægt að hafa almenningssamgöngur þar með þeim hætti sem við þekkjum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Við getum nefnt mörg sæmilega stór bæjarfélög þar sem eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að reka einhverjar samgöngur á milli byggðarkjarna og fleira mætti nefna. Út frá jafnræðinu hefði ég viljað horfa aðeins víðar á það hugtak sem almenningssamgöngur eru. Frú forseti þekkir vel til á Egilsstöðum og í Fljótsdalshéraði og við þekkjum að það er ein höfuðborg í þessu landi sem hefur ákveðnar skyldur við landsbyggðina og margir þurfa að sækja sér þjónustu til hennar, fara til læknis, sækja félagslega þjónustu eða hvað það heitir allt saman, en í dag kostar flugfar fyrir einstakling á fjórða tug þúsunda. Það er nefnilega gríðarlega langur spotti að keyra frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Ef við tökum fjölskyldu sem dæmi, 3–4 manna fjölskyldu, er það fljótt að telja ef það er komið á annað hundrað þúsund krónur að fljúga til höfuðborgarinnar og svo til baka eða þá að velja sér einkabílinn þar sem stjórnvöld hafa hækkað gríðarlega álögur á heimilin, sérstaklega á landsbyggðinni, sem þurfa lífsnauðsynlega á því að halda að eiga bifreiðar. Bílar eru í raun og veru fætur fólksins því að vegalengdirnar svo miklar.

Þess vegna velti ég fyrir mér og vil spyrja hv. þingmann um það, um leið og hann leggur hér til að við eflum samgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem er göfugt markmið í sjálfu sér, hvort hann hafi eitthvað leitt hugann að íbúum þeirra byggðarlaga sem búa við mjög takmarkaða þjónustu að þessu leytinu til. Ríkið hlýtur að hafa skyldur gagnvart þeim rétt eins og íbúum höfuðborgarinnar. Hefur hann eitthvað velt fyrir sér hvernig við getum aukið jafnræði fólksins í landinu og þá lífsgæði fólksins á landsbyggðinni rétt eins og á höfuðborgarsvæðinu? Gjöld og skattar á eldsneyti hafa hækkað mikið á undangengnum árum. Þetta er farið að bitna mjög harkalega á fólki, sérstaklega á landsbyggðinni sem þarf oftar en ekki að keyra um langan veg til að sækja þjónustu.

Það er grundvallaratriði, ef við næðum að koma þessu frumvarpi áleiðis með það að markmiði að efla og bæta almenningssamgöngur almennt í landinu, að einhverjir hópar af fólki verði ekki út undan þegar menn koma með slíkar breytingar sem eru til bóta fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu. Við getum tekið Eyjafjarðarsvæðið sem dæmi, þar býr fjöldi fólks sem nýtir sér almenningssamgöngur og menn hafa jafnvel rætt um að útfæra almenningssamgöngurnar þar út eftir firði, allt norður til Siglufjarðar. Er nú margt raunhæft í því. Hvað hefur hv. þingmaður hugsað sér með þessu? Um leið og við bjóðum upp á öflugar almenningssamgöngur og hagstæðar erum við að veita fólki ákveðin tækifæri til að eyða fjármunum sínum í eitthvað annað.

Maður horfir kannski til annarra landshluta þar sem fólk verður hreinlega að nýta sér einkabílinn. Ég hef jafnvel velt því fyrir mér hvort menn eigi að horfa til þess kostnaðar sem fjölskyldur í viðkomandi landshlutum verða óhjákvæmilega fyrir vegna þessara miklu vegalengda. Hefur hv. þingmaður eitthvað velt fyrir sér stöðu þeirra fjölskyldna þegar kemur að samgöngumálum í þessu landi?

Mig langar að spyrja hv. þingmann annars af því að við erum að tala um almenningssamgöngur. Íbúar eru búsettir í Hrísey, Grímsey og Vestmannaeyjum og við mörg höfum barist fyrir því á undangengnum árum að skilgreina ferjusiglingar á milli lands og eyja í þessum tilvikum sem þjóðveg og framlögin í því ljósi þannig að kostnaður íbúa lækki í viðkomandi byggðarlögum, Hrísey, Grímsey og Vestmannaeyjum, og jafnvel að þjónusta verði aukin. Nú er verið að fækka ferðum til Hríseyjar og mikil óánægja er þar eðlilega með það. Hefur hann velt fyrir sér hvort þeir aðilar sem búa í þessum eyjum ættu ekki að njóta aukinna réttinda og hvort ekki væri sjálfsagt mál að sinna samgöngum við þessi samfélög betur en nú er gert? Það er verið að skera heilmikið niður í ferðum til þessara samfélaga.

Þetta eru í örfáum orðum nokkur hugrenningaratriði sem vakna upp í þeirri mikilvægu umræðu sem ég vonast til að verði fjölmenn því að þetta er ákveðið grundvallarmál sem menn þurfa að hugsa í þessum efnum. Allir þurfa á öflugum samgöngum að halda og þetta er endalaust umræðuefni en það var kannski þetta helst sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í, auk þess sem ég ítreka að ég hefði talið málinu meira til framdráttar að þingmenn allra flokka, og þingmenn utan flokka eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson sem er mjög áhugasamur um þetta mál, hefðu fengið að koma fyrr að þessu máli og hafa jafnvel einhver áhrif, kannski ekkert í grundvallaratriðum, til þess að geta verið með á þessu máli og reynt að fylgja því eftir. Sérstaklega á tímum sem þessum eru öflugar almenningssamgöngur nauðsynlegar fyrir fólk vegna þess að margir hafa einfaldlega ekki ráð á því í dag að lifa eins og menn lifðu á því herrans ári 2007.

Þetta er eitt af þeim málum sem við þurfum að hugsa upp á nýtt í grundvallaratriðum og við framsóknarmenn erum til í það verkefni. Þegar hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kemur úr fæðingarorlofi sem er ekki langt í veit ég að hann muni fylgja þessu máli eftir og vinna fyrir okkur framsóknarmenn í þessu mikilvæga máli sem ég vona að menn nái einhverju samkomulagi um á vettvangi nefndarinnar. Ég tek fram að ég hef ekki kynnt mér þetta mál út í ystu æsar, en það verður væntanlega gert á vettvangi nefndarinnar. Ég hlakka til að heyra svör hv. þingmanns við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann.