Almenningssamgöngur

Þriðjudaginn 02. mars 2010, kl. 17:58:56 (0)


138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef rennt yfir þetta mál og líst ágætlega á það. Ég vil hins vegar gera athugasemdir við það að þetta er ekki stjórnarfrumvarp. Þetta er frumvarp nokkurra þingmanna í Vinstri grænum og jafnvel þó að þetta sé allra góðra gjalda vert hefði ég viljað að meiri alvara væri á bak við það. Ég er ekki að segja að þeim flutningsmönnum sem leggja þetta fram sé ekki full alvara með því en ég hefði viljað að ríkisstjórnin í heild sinni kæmi með svona frumvarp. Þá hefðu kannski fleiri stjórnarliðar líka tekið þátt í umræðunni en síðast þegar ég leit á mælendaskrána var ég síðasti maður á henni.

Markmið þessara laga er göfugt, þ.e. að stuðla að öflugum, öruggum og hagkvæmum almenningssamgöngum í lofti, á láði og legi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Enn fremur að auka hlutdeild almenningssamgangna í samgöngum almennt, bæta skipulagningu þeirra og tryggja fjármögnun. Ég vil samt benda á það að þegar við horfum á landið allt eru mismunandi sjónarmið á lofti. Á höfuðborgarsvæðinu geta samgöngur oft verið hægar og umferðin þung en önnur sjónarmið og aðrir hagsmunir eru kannski til staðar úti á landi. Á Austurlandi eða Norðurlandi eru menn fyrst og fremst að hugsa um það að stækka atvinnusvæðin, ná betri tengingu á milli einstakra bæjarfélaga, fyrst og fremst með það að leiðarljósi að ef einhver missir vinnuna á einhverjum stað þurfi hann ekki að rífa fjölskyldu sína upp og flytja heldur geti sótt vinnu á stað sem tekur innan við klukkutíma að keyra til — ef við gefum okkur einhver tímamörk. Þá þarf viðkomandi aðili ekki að selja húsið sitt og flytja úr því samfélagi sem hann hefur verið í. Það er þess vegna sem við landsbyggðarþingmenn tölum fyrir því að fara þurfi í stórtækar almenningsúrbætur almenningssamgangna eða samgönguúrbætur úti á landi.

Hér er verið að ræða um almenningssamgöngur. Félagi minn í Framsóknarflokknum, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, benti á það hér áðan að honum fyndist frumvarpið vera svolítið höfuðborgarlegt og ég vil taka undir það. Ég deili þeim sömu áhyggjum. Það er góðra gjalda vert og mjög mikilvægt að fara í að styrkja almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ef fólk notaði strætó í meiri mæli en gengur og gerist mundi það minnka losun gróðurhúsalofttegunda, það mundi spara ýmsan kostnað. En það verður samt að taka tillit til þess að við búum á mjög köldu landi og kannski hrýs fólki hugur við því að standa úti og bíða. Samfélag okkar hefur líka þróast í þá átt að hlutirnir gerast hratt og menn þurfa að vera á mörgum stöðum, þannig að það er í rauninni bara einkabíllinn sem dugar. Fólk kýs hann frekar en að nota strætó. Ég get nefnt sem dæmi starf alþingismannsins. Við erum oft á ferðinni og ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur út um allt land og því kýs maður frekar að vera á eigin bíl, bara vegna þess að maður sparar tíma.

Það er líka annað í þessu, og ég held við megum ekki gleyma því, og það er sá hái kostnaður sem lendir á fólki sem þarf að fara víða, þarf að nota einkabílinn sinn, líka þeir sem eru að flytja vörur út um allt land, vegna þess að þær samgöngur, sá flutningsmáti, er fyrst og fremst um þjóðvegi landsins. Menn tala um að strandsiglingar séu hugsanlega einhver lausn á því að minnka álagið á þjóðvegum landsins. En nútíminn kallar á það að vörur sem kannski eru framleiddar á Akureyri eða á Austurlandi séu komnar í búðir á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landinu strax næsta dag. Þetta eru oft ferskvörur — það eru t.d. gríðarlega stór og mikil framleiðslufyrirtæki á Norðurlandi og þær vörur sem eru framleiddar þar eru komnar í búðir hér strax morguninn eftir. Það sem er að sliga þær er einmitt hár flutningskostnaður. Ég er 1. flutningsmaður á frumvarpi sem kemur á móts við þennan háa flutningskostnað og það verður rætt hér seinna í dag ef tími vinnst til.

Þegar við ræðum um almenningssamgöngur verðum við líka að tala um flugsamgöngur sem skipta öllu máli fyrir þá sem búa í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, hvort sem um er að ræða milli Akureyrar og Reykjavíkur, Egilsstaða og Reykjavíkur, eða Akureyrar og Þórshafnar og Vopnafjarðar. Það er langt á milli staða og fólk þarf að vera komið þangað í tæka tíð. Mér finnst umræðan um flugsamgöngur oft vera skökk. Maður hefur heyrt einstaka borgarfulltrúa í Reykjavík tala fyrir því að flugvöllurinn verði færður, t.d. til Keflavíkur, sem ég tel afar óheppilegt, og vil meina að sú aðgerð mundi stórskaða samgöngur og hina mikilvægu hagsmuni sem búa að baki því að hægt sé að ferðast hér innan lands á einum klukkutíma.

Við skulum líka hafa það í huga — vegna þess að stundum hefur verið sagt að flugvellir eigi ekki heima í miðborgum — að ég held að hvergi í heiminum fyrirfinnist sú borg þar sem ekki er samgöngumiðstöð, hvort sem um er að ræða flugvöll eða lestarstöð, í miðborgum. Af hverju eru menn með lestarstöðvar í miðborgum? Jú, það er vegna þess að þar aðalstjórnsýslan, þar er öryggistækið eins og sjúkrahúsin og fleira, sem þeir sem búa úti á landi þurfa svo mikið á að halda.

Að því sögðu vil ég bara segja að þetta frumvarp slær mig ágætlega. Ég mun styðja það svo framarlega sem það kemst í gegnum Alþingi. Það hefði styrkt það ef þetta hefði verið stjórnarfrumvarp og ríkisstjórnin öll hefði verið á bak við það. En kannski er þetta til marks um þau nýju vinnubrögð sem ég tel mikilvægt að við höfum hér á Alþingi að þingmannafrumvörp komist í gegn og verði ekki endalaust svæfð í nefndum, hvort sem um er að ræða frumvörp stjórnarliða eða stjórnarandstæðinga. Ef við náum þessu getum við kannski náð að auka virðingu Alþingis, auka vægi Alþingis og styrkt það gagnvart framkvæmdarvaldinu. Nú reynir á flutningsmenn þessa frumvarps. Þeir verða að leggja sig alla fram til þess að koma því í gegnum nefndir. Það liggur á herðum þeirra að gera það. Við framsóknarmenn munum aðstoða við það eins og við best getum.