Almenningssamgöngur

Þriðjudaginn 02. mars 2010, kl. 18:23:23 (0)


138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Hv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa athugasemd. Nú vil ég helst ekki fara mikið í umræður um Reykjavíkurflugvöll sérstaklega í tengslum við þetta mál vegna þess að ég held að það mundi ekki gera þessu máli sérstakt gagn. Það er stórt mál sem þarf að gefa sér miklu betri tíma til þess að ræða heldur en við getum hér í stuttum andsvörum við þetta mál sérstaklega.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í minni ræðu, ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir landið allt að það séu góðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið, þar með talið flugsamgöngur. Ég tel að aðalatriðið sé að það séu góðar samgöngur. Ég hef aldrei litið svo á að það þýði að Reykjavíkurflugvöllur þurfi að vera nákvæmlega þar sem hann er í dag og ekki með neinum öðrum hætti. Það er í mínum huga ekki aðalatriðið heldur að það séu tryggðar þessar góðu samgöngur við höfuðborgarsvæðið.

Ég hef á mínum tíma sem borgarfulltrúi velt því fyrir mér hvort aðrir staðir í námunda við höfuðborgarsvæðið komi til álita í því efni. Er hægt að breyta legu núverandi flugvallar í Vatnsmýrinni þannig að það komi betur til móts við þessi sjónarmið, annars vegar góðar samgöngur við Reykjavík og hins vegar þörf Reykjavíkur fyrir annars konar skipulagsstefnu sem ég hef líka talað um? Þetta eru hlutir sem þyrfti að skoða. Ég vil segja það út af Reykjavíkurflugvelli að ég hvet mjög til þess að það fari fram heildarsamráð yfirvalda í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélaganna út um land, sem nota þennan flugvöll mjög mikið, og samgönguyfirvalda á landsvísu um framtíðarfyrirkomulag þeirra mála. Eins og ég sagði áðan mun það ekki gerast hér á morgun eða hinn. Það er framtíðarmúsík (Forseti hringir.) en mér finnst mikilvægt að allir geti komið að þeirri (Forseti hringir.) stefnumörkun, líka sveitarfélögin út um landið. (Forseti hringir.)