Almenningssamgöngur

Þriðjudaginn 02. mars 2010, kl. 18:27:53 (0)


138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil heldur reyna að draga það fram sem sameinar okkur en það sem kann að skilja á milli í sjónarmiðum okkar hv. þingmanns í þessu efni. Okkur kann að greina á um tiltekna hluti eins og hér hefur komið fram en þess vegna segi ég frá mínum bæjardyrum sem þingmaður hér í Reykjavík og með minn bakgrunn sem borgarfulltrúi til margra ára að ég tel mikilvægt að við reynum að búa til sem breiðasta samstöðu og breiðasta nálgun á stefnumótun hvað þessi mál varðar, samgönguþjónustu við höfuðborgarsvæðið. Allir landsmenn þurfa að geta nýtt sér þá þjónustu sem hér er og hv. þingmaður rakti ágætlega, sjúkrahússþjónustu o.s.frv. Það má heldur ekki gleyma því að flugvöllurinn er staðsettur mjög vestarlega á höfuðborgarsvæðinu og þyngdarpunktur byggðarinnar hefur færst mjög mikið til. Auðvitað sækja margir þeirra sem nýta sér flugvöllinn annað en bara niður í Kvos, þótt það séu auðvitað mjög margir og stjórnsýslan sé hér. Margir sækja annað en bara í stjórnsýsluna.

Þetta er í raun og veru aukaatriði í þessu samhengi. Ég segi bara: Mér finnst mikilvægt að það verði til sem breiðust samstaða og samráð allra aðila sem þurfa að koma að því máli, sveitarfélaganna hér á þessu svæði og út um landið, samgönguyfirvalda og annarra hagsmunaaðila sem koma að stefnumótun til langrar framtíðar hvað varðar staðsetningu flugvallarins. Í þessu efni finnst mér fyrst og fremst mikilvægt að það verði til ákveðinn rammi um almenningssamgangnaþjónustu fyrir landið allt, hvort sem er á landi, á sjó eða í lofti. Þess vegna er þetta frumvarp flutt, til þess að reyna að búa til eða skapa möguleika á slíkum almennum ramma. Ég vænti þess að um það geti orðið góð samstaða.