Breytingar á stofnanaumhverfi vegna ESB-aðildar

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 15:22:42 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

breytingar á stofnanaumhverfi vegna ESB-aðildar.

[15:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að draga saman það sem hæstv. ráðherra sagði. Hann sagði í fyrsta lagi: Það verður gríðarleg uppstokkun á stofnanakerfinu sem hlýst af aðild okkar að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Í öðru lagi sagði hæstv. ráðherra: Það verða til nýjar stofnanir og þær verða mjög mannaflsfrekar. Í þriðja lagi segir hann: Kostnaðurinn mun hækka umtalsvert mikið.

Þetta er það sem hæstv. ráðherra greindi okkur frá og er auðvitað mjög þýðingarmikið. Það er dálítið í samræmi við það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var að greina frá í viðtali við Morgunblaðið. Hann sagði: Það er óðs manns æði að vera að leggja af stað í þetta ferli nema það liggi þá fyrir hvort það sé raunverulegur þjóðarvilji, hvort það sé vilji af hálfu hæstv. ríkisstjórnar fyrst og fremst til þess að standa þannig að þessu.

Spurningin sem liggur fyrir núna er þessi: Er eining um það innan ríkisstjórnarinnar að halda þessu áfram þegar það er smám saman að koma á daginn að stofnanaumhverfið verður allt viðurhlutameira, flóknara, dýrara og (Forseti hringir.) mannaflsfrekara en menn hafa látið í veðri vaka?