Breytingar á stofnanaumhverfi vegna ESB-aðildar

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 15:23:52 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

breytingar á stofnanaumhverfi vegna ESB-aðildar.

[15:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Að því er varðar síðustu spurningu hv. þingmanns, sem var eftirfarandi: Er eining um það innan ríkisstjórnarinnar að halda umsóknarferlinu fram? er svarið afdráttarlaust já. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að leggja síðan niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar.

Hvað varðar þann samandrátt sem hv. þingmaður gerði mér til hægðarauka var hann allur úr lagi færður og það var allt rangt sem hann hafði þar eftir mér nema niðurlagið. Ég hef sagt að kostnaðurinn varðandi landbúnaðarstofnanakerfið verður umtalsvert meiri. Ég tel að það sé enginn vafi á því.

Hitt sem hv. þingmaður sagði var rangt. Ég sagði ekki að þetta mundi hafa í för með sér gríðarlega uppstokkun á mörgum sviðum. Ég sagði að svo væri í öðrum ríkjum. Svo verður ekki á Íslandi vegna aðildar okkar að Schengen og EES. En það þarf að skoða stofnanaumhverfi landbúnaðarins. Það er alveg hárrétt. Sú sýn sem við höfum og sem samningahópur okkar í landbúnaði mun væntanlega leggja fram er (Forseti hringir.) að gera þetta sem ódýrast og mest straumlínulagað, nota stofnanir sem eru fyrir hendi og sameina þær stofnanir sem (Forseti hringir.) regluverkið óskar eftir í eina stofnun.