Aðför og gjaldþrotaskipti

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 17:04:09 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

aðför og gjaldþrotaskipti.

447. mál
[17:04]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig að allar lagabætur og réttarbætur til verndar skuldarum, lánþegum, hafa miðast að því að gera löggjöfina þannig úr garði að það sé í rauninni með öllum tiltækum ráðum komið í veg fyrir að einstaklingar þurfi að fara í gjaldþrotaskipti og nefni ég þá greiðsluaðlögunina sérstaklega. Hvað varðar fyrningu krafna við gjaldþrot var lögð fram tillaga fyrir þingið síðastliðinn vetur — það gerði sú er hér stendur í sambandi við frumvarp um réttarstöðu skuldara — um að kveða á um sérreglu um fyrningu við gjaldþrot. Það ákvæði náði reyndar ekki fram að ganga og var fellt brott að tillögu hv. allsherjarnefndar. Ef ég man rétt var sú hugsun að baki að greiðsluaðlögun mundi þá koma í veg fyrir að mestu leyti að einstaklingar færu í gjaldþrot og það mundi kannski vera minni hvati en ella að einstaklingar færu greiðsluaðlögunarleiðina ef menn færu í einhverjar sérreglur um fyrningu. En að þessu sögðu tel ég vitaskuld ekkert því til fyrirstöðu að allsherjarnefnd ræði það sérstaklega hvort tilefni sé til að koma á sérreglum um fyrningu við gjaldþrot.