Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 17:15:26 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir efnislega og góða ræðu og hvernig hann fór yfir frumvarpið. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég fagna því að þetta sé komið fram því þó að það sé ekki stórt að sniðum þá er það mjög mikilvægt.

Mig langar að nota þennan tíma til þess að spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi hvort hann geti upplýst okkur um það hvernig vinnan gangi við hagstjórnarsamninginn, sem er mjög mikilvægur, og hvernig staðan er, hvort við megum eiga von á honum fljótlega eða þá í haust.

Í öðru lagi í ljósi þess sem gerðist á haustdögum 2008, sérstaklega í þeim sveitarfélögum sem voru í hvað mestum vexti, hver er skoðun hæstv. ráðherra á því hvort það væri hugsanlegt að banna sveitarfélögum að taka erlend lán?

Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra varðandi að nú er samkomulag um að kostnaðarreikna lagafrumvörp sem eru lögð fram á Alþingi og það er ekki gert. Ég hef margsinnis bent á það í haust að tekjur voru færðar frá sveitarfélögunum til ríkisins sem svarar til 2,5 milljörðum en sveitarfélögin eru í miklu basli eins og ríkið. Mér finnst ósanngjarnt að ríkið sé að færa tekjur sveitarfélaganna til sín og gerði miklar athugasemdir við það. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem er fagráðherra sveitarstjórnarmála, hvort honum finnist ekki eðlileg krafa að þetta samkomulag verði hér eftir uppfyllt, þ.e. að ekki fari í gegnum Alþingi fleiri frumvörp þar sem ekki er búið að kostnaðarreikna hvaða áhrif það hefur á tekjur sveitarfélaganna og ríkisins, hvort verið sé að færa tekjur frá sveitarfélögunum til ríkisins eða öfugt.