Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 17:48:43 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig þekkja það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason greindi frá. Munurinn er sá að við erum að binda í lög að einhver aðili geti kallað eftir upplýsingum um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og annað í þeim dúr. Væri þá ekki rétt að Alþingi reyndi að binda í lög eftirlit með stofnunum á sama hátt þannig að stjórnsýslustigin sætu við sama borð? Það er eitt að setja sér verklagsreglur og ætla að fara eftir þeim og annað að binda í lög eitthvað eins og hér er verið að gera til að gera nefnd kleift að kalla eftir gögnum um fjárhag sveitarfélaga. Er þá ekki rétt að við gætum samræmis á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga og veltum fyrir okkur að setja á sama hátt lög sem skikka t.d. fjárlaganefndina til að fylgja eftir og kalla eftir upplýsingum frá stofnunum á þriggja mánaða fresti til að sjá framvindu fjárlaga á sama hátt? Mér finnst að hjá þessari ágætu vinstri stjórn sem nú situr við völd héti það að sýna jafnræði á milli stjórnsýslustiga og það væri þá, herra forseti, algerlega í takt við þá ágætu stjórn.