Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 17:50:16 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:50]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi í svari sínu að munur væri á því að setja verklagsreglur og binda í lög. Nú veit ég ekki betur en að bundið sé í fjárreiðulög að fjárlaganefnd beri að fylgja eftir fjárlögum hvers árs. Einnig er bundið í lög að Ríkisendurskoðun beri að fylgjast með rekstri stofnana og upplýsa fjárlaganefnd og fjárveitingarvaldið um stöðu þeirra.

Auðvitað á að gæta samræmis á milli sveitarstjórnarstigsins og svo þess sem við erum að sýsla við og um það erum við auðvitað öll sammála. Ég held að ekki sé ágreiningur um það en hins vegar má vel skerpa á því að tengsl séu þar á milli, m.a. hvaða áhrif verk ríkisvaldsins hafa á fjárhag sveitarfélaga. Við gerum okkur grein fyrir því í öllum þeim aðgerðum sem við grípum til, bæði til að afla tekna og færa til verkefni, hvaða áhrif það hefur á báða bóga.

Það er mjög mikilvægt og ég fagna því að hv. þingmaður nefnir það sérstaklega að við tökum eftirfylgni fjárlaga fastari tökum en áður hefur verið gert, því að hafi einhvern tíma verið mikilvægt að fylgja fjárlögum vel eftir þá er það nú. Ég er satt að segja ekkert yfirþyrmandi bjartsýnn á að við komumst hjá því að fara hreinlega í fjárlög ársins í ár ef fer sem horfir og ef sú áætlun sem við ákváðum að fylgja í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í samskiptum okkar við aðrar þjóðir tefst enn frekar en hún hefur tafist. Við erum þegar sex til átta mánuðum á eftir áætlun hvað það varðar og dragist það öllu lengur er ég ekkert mjög bjartsýnn á að við komumst hjá því að þurfa að taka upp fjárlög ársins í ár, sem yrði ekkert skemmtilegt (Forseti hringir.) ofan í þann niðurskurð sem blasir við okkur fyrir árið 2011.