Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 16. mars 2010, kl. 15:13:32 (0)


138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

virðisaukaskattur.

460. mál
[15:13]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil örstutt óska ráðherra og ráðuneyti til hamingju með þetta skref sem hér hefur verið stigið. Ríkisvaldið hlustar eftir óskum atvinnulífsins, ferðaþjónustunnar í þessu tilviki, og með þessu frumvarpi og öðrum reynum við að ganga í takt við atvinnulífið. Öll þurfum við á öflugri ferðaþjónustu að halda, við þurfum að dreifa ferðaþjónustunni og ferðamönnunum um landið og með þessu komum við í veg fyrir að fjöldi bílaleigubíla verði sá tappi sem hamli vaxandi fjölda ferðamanna á næsta sumri.

Þetta frumvarp er dæmi um verkefni þar sem ríkið gefur eftir tekjur til skemmri tíma en það er enginn vafi í mínum huga að til lengri tíma mun þetta skila miklu meiri tekjum inn til ríkissjóðs. Það má kannski segja að þetta sé í anda þeirra frumvarpa sem fjármálaráðherra mælti fyrir á síðasta vetri um stuðning til handa nýsköpunarfyrirtækjum þar sem ríkið gaf eftir tekjur til skemmri tíma en með von um að til lengri tíma litið mundi þessi stuðningur efla atvinnu í landinu.

Hér er vel gert, ráðuneytið hefur stigið vel niður og ég óska ráðherra og ráðuneyti til hamingju.