Íslandsstofa

Þriðjudaginn 16. mars 2010, kl. 15:39:00 (0)


138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

Íslandsstofa.

158. mál
[15:39]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar bætir úr tilfinnanlegri þörf fyrir samræmingu og skýran lagaramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands, útflutningsaðstoð, markaðssetningu á íslenskri menningu og fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Enginn vafi er á því að full þörf er fyrir samræmt göngulag í þessum efnum og hefur ítrekað verið bent á það á undanförnum árum og reyndar áratugum að ímyndar- og kynningarmál landsins hafi lengi verið ómarkviss og reyndar í nokkru skötulíki. Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þess að vera með markvisst landkynningar- og ímyndarstarf á þessum örlagatímum í sögu þjóðarinnar þegar hagsmunir okkar eru líklega sem aldrei fyrr nátengdir orðspori lands og þjóðar á erlendri grundu. Má sannarlega halda því fram að tilvist Íslandsstofu fyrir tveimur árum, þegar bankakerfið okkar hrundi, hefði hjálpað okkur að koma sjónarmiðum okkar skýrar og markvissar á framfæri en raun bar vitni.

Formaður utanríkismálanefndar hefur farið vel yfir efnisatriði frumvarpsins í umræðunum hér í dag og þær breytingartillögur sem lagðar eru fram. Ég vil fara örfáum orðum um hlut iðnaðarnefndar í þessu verki. Það var utanríkismálanefnd sem leitaði álits iðnaðarnefndar á frumvarpinu, og þá sérstaklega hvort nefndin teldi þörf á frekari breytingum á lögum af þessu tilefni. Þar kemur helst til álita hvort breyta þurfi lögum um skipan ferðamála, sérstaklega 3. málslið 4. gr. þar sem kveðið er á um það verkefni Ferðamálastofu að annast markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar. Ljóst er að sú tilhögun að færa markaðsskrifstofu Ferðamálastofu til Íslandsstofu og reka hana innan vébanda hennar er í fullu samræmi við það ákvæði 4. gr. gildandi laga að Ferðamálastofu sé heimilt með samþykki ráðherra að fela öðrum að annast ákveðin verkefni. Ég tek hins vegar undir það, og það má færa fyrir því gild rök, að eðlilegt sé að gera fljótt, og svo fljótt sem verða má, breytingar á þessum lögum og kveða skýrt á um það að markaðs- og kynningardeild Ferðamálastofu verði rekin innan vébanda Íslandsstofu.

Ég vil því að það komi fram að þetta er eitt af þeim atriðum sem verður skoðað og er til skoðunar í nefnd sem nú er að störfum í iðnaðarráðuneytinu og hefur með höndum það verkefni að fara í gegnum allsherjarendurskoðun á lögum um skipan ferðamála með aðild hagsmunaaðila í greininni.

Nokkuð var rætt í iðnaðarnefnd um 3. gr. frumvarpsins sem fjallar um stjórn Íslandsstofu. Þar er kveðið á um að skipuð skuli níu manna stjórn sem samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, forsætisráðherra, iðnaðarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra en einn án tilnefningar sem verði formaður stjórnarinnar. Það sjónarmið kom fram hjá nefndinni að ef til vill væri skilvirkara að fækka stjórnarmönnum en hafa hins vegar við hlið stjórnarinnar eins konar fulltrúaráð þar sem fleiri aðilar sem tengjast einstökum viðfangsefnum Íslandsstofu fengju aðild. Vissulega má nefna þar ýmsa aðila eins og menningargeirann sem hefur ekki beinan fulltrúa í stjórninni. Það mætti nefna aðila sem tengjast sérstaklega fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi o.s.frv.

Iðnaðarnefnd gerði tillögu um það að ferðaþjónustunni yrði gert hærra undir höfði í stjórnskipan stofnunarinnar með því að samtök aðila í ferðaþjónustu, sem eru þau heildarsamtök fyrirtækja í greininni sem tiltölulega nýlega hafa verið stofnuð, tilnefndu einn til tvo fulltrúa og iðnaðarráðherra tilnefndi tvo fulltrúa í stað eins. Það er niðurstaða utanríkismálanefndar að gera að tillögu sinni að Ferðamálasamtök Íslands eigi fulltrúa í stjórninni og færa má fyrir því ákveðin rök. En þó vil ég benda á að það eru samtök sem standa nú kannski opinbera geiranum mun nær en Samtökum ferðaþjónustunnar og menn þurfa að velta því fyrir sér hvort það jafnvægi sem þarna er lagt upp með í samsetningu stjórnarinnar riðlist að einhverju leyti við þessa tilhögun.

Ég vil rétt að lokum leggja áherslu á að það er bjargföst skoðun mín, og okkar í iðnaðarnefnd, að tryggja þurfi að þeirri starfsemi sem Fjárfestingarstofa hefur haft með höndum verði gert hátt undir höfði í starfsemi Íslandsstofu. Það er mikilvægara en nokkru sinni að við hugum vel að því hvernig við tryggjum aukna erlenda fjárfestingu í landinu. Ég tel reyndar að nokkuð skorti upp á það að við Íslendingar höfum verið nægilega markvissir í því að taka ákvarðanir um það hvar við viljum sérstaklega hafa forganginn í sambandi við þær greinar sem við viljum að laði til sín erlenda fjárfestingu. Við höfum frekar verið í viðbragðsáætlunum þegar erlendir aðilar hafa bankað á dyrnar en vanrækt það hlutverk stjórnvalda að gefa tóninn um það hvar við viljum byggja upp — hvar eru sóknarfærin í íslensku atvinnulífi og hvert viljum við leita til þess að fá erlenda fjárfestingu inn í landið sem hæfir stefnumótun okkar?

Ég tel því mikilvægt að við tryggjum það, þegar Íslandsstofa er komin til framkvæmda, að þessari hlið málanna, þ.e. að laða til landsins erlenda fjárfestingu, sé gert hærra undir höfði. Það er vissulega áhyggjuefni að í dag eru einungis tvö og hálft stöðugildi innan Fjárfestingarstofunnar og þeim starfsmönnum sem sinna þessu hlutverki hefur fækkað mjög verulega á liðnum árum.