Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald

Þriðjudaginn 16. mars 2010, kl. 16:18:40 (0)


138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[16:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Já, þetta mál er núna komið til 2. umr. og það er lengra en það hefur komist hingað til, má segja. Það hefur svolítinn aðdraganda, málið var flutt á 136. þingi og 137. þingi og núna er það á 138. þingi þannig að það er ekkert nýtt á ferðinni, það er búið að skoða þetta talsvert lengi. Flutningsmenn að málinu eru sú er hér stendur og hv. þm. Atli Gíslason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Eygló Harðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þuríður Backman. Það eru fjórir flokkar sem má segja að standi að málinu núna.

Ég vil draga fram að þó að sú er hér stendur sé 1. flutningsmaður bar málið að á sínum tíma með Kolbrúnu Halldórsdóttur, þáverandi þingmanni. Síðan varð Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra og þá tók ég við af henni, má segja, þannig að þeir sem upphafinu valda valda miklu og hún á mikinn heiður skilið fyrir að hafa upphaflega vakið máls á stöðu þessara mála og núna held ég að við séum komin á þann tímapunkt að við getum farið að klára málið.

Þetta er mjög einfalt mál, það er bara verið að fella brott undanþáguheimild. Undanþáguheimildir á að túlka þröngt en þessi undanþáguheimild hefur einhverra hluta vegna verið túlkuð með þeim hætti að það virðist ekki mikið mál að nýta hana. Það hefur verið sérstakt hvernig það ferli allt hefur verið.

Svo ég rifji aðeins upp forsöguna lagðist lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gegn því að leyfi fyrir nektardansi yrði veitt. Hann er lögboðinn umsagnaraðili um rekstrarleyfi veitingastaða og átti því að veita umsögn um hvort nýta ætti undanþáguheimildina eða ekki. Maður skyldi þá halda að það hefði dugað til, þá yrði þetta ekki leyft, en það fór ekki þannig. Niðurstaða sýslumanns sem hafnaði leyfinu á grundvelli umsagnar lögreglustjórans var kærð til hæstv. dómsmálaráðherra á sínum tíma og svo komu tveir úrskurðir frá dómsmálaráðuneytinu sem í var sagt að það væru verulegir efnisannmarkar og þeir leiddu til ógildingar á ákvörðun sýslumannsins. Síðan þurfti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu að gefa út nýja umsögn og í ljósi úrskurðar dómsmálaráðuneytis þótti honum sér ekki fært annað en að mæla með því að leyfið yrði veitt þannig að þessu var öllu snúið við.

Það hvernig þetta gat gerst vekur upp miklar spurningar um það hvernig lögin eru túlkuð. Á þeim tíma fjallaði borgarráð Reykjavíkurborgar um svona leyfi líka, vildi ekki veita það og það var samþykkt að gera það ekki. Þegar úrskurður dómsmálaráðuneytis lá fyrir þótti borgarráði sér ekki fært annað en að veita jákvæða umsögn og gerði það á fundi sínum 28. ágúst 2008 með bókun.

Í þeirri bókun kemur fram, með leyfi forseta:

„Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu. Því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða.“

Borgarráð var þarna komið í klemmu með þetta mál og ályktaði eiginlega með ákalli til Alþingis um að taka á málinu og breyta lögum. Það var gert og lagt til að fella brott undanþáguákvæðið sem málið sem við ræðum núna gengur út á. Þegar þetta var rætt hérna á fyrri stigum komst málið ekki til 2. umr., hvorki á 136. þingi né 137. þingi, en við erum þó komin til 2. umr. núna. Ég tek undir með hv. talsmanni nefndarinnar, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, að ég tel málið fullrætt og að þverpólitísk samstaða sé um að afgreiða það. Það eru allir flokkar annaðhvort á nefndarálitinu eða hafa tjáð sig í pontu um að þeir séu samþykkir því að ganga nú þessa götu til enda og klára málið, enda hafa þeir umsagnaraðilar sem hafa gefið umsagnir verið jákvæðir gagnvart því. Ég ætla ekki að endurlesa hverjir þeir eru en þetta eru að talsverðu leyti þeir umsagnaraðilar sem hafa haft áhyggjur af stöðu kvenna, Kvenréttindafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Jafnréttisstofa o.s.frv.

Ég heyrði að hv. framsögumaður nefndarálitsins, hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fór hér með ákveðin rök sem hníga að því að þetta sé mál sem varði talsvert hagsmuni kvenna, en það varðar líka talsvert hagsmuni karla, ég vil draga það fram. Ég veit að hv. þingmaður er sammála því að karlar eru líka fórnarlömb, má segja, í þessum málum. Ég þarf ekkert að útskýra það neitt frekar, held ég, ég held að menn átti sig algjörlega á því að það eru margir sem vakna upp við vondan draum vegna þessarar starfsemi.

Ég þakka allsherjarnefnd sem hefur farið yfir þetta mál og mælir með að það verði afgreitt. Ég er sammála því sem kemur fram í nefndarálitinu, að það sé eðlilegt að gera þetta ekki fyrirvaralaust. Þetta eru staðir sem eru í rekstri, þar vinnur starfsfólk og það er svolítið harkalegt að setja lög sem fyrirvaralaust breyta starfseminni að miklu leyti. Það er gefinn aðlögunartími og hann er til 1. júlí 2010 þannig að hér er gengið fram af varfærni og ég tel það eðlilegt.

Talsmaður nefndarinnar kom áðan inn á allt annað mál sem við erum ekki að ræða hér en væri kannski samt ágætt að við tjáðum okkur eitthvað um, það er þessi aukna glæpastarfsemi almennt í landinu sem kannski tengist ekki þessu máli — getur samt gert það. Hún sagði að ríkislögreglustjóri hefði kallað eftir því að banna alþjóðlega glæpahringi eða samtök eða klúbba. Ég hef tekið eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra hefur tjáð sig um þessi mál opinberlega og talað einmitt um að hún vilji skoða þau. Ég tek undir það. Ég veit að það er kannski ekki mjög auðvelt fyrir hæstv. dómsmálaráðherra eða aðra hv. þingmenn að tjá sig mikið um þetta af því að enginn vill setja sjálfan sig í hættu, svo maður segi það hreint út, en það verður auðvitað samt að tala um þessi mál. Það er ekki hægt í skjóli óttans að gera ekki neitt. Ég tel að þessa umræðu þurfi að taka og skoða hvort ekki sé grundvöllur fyrir því að banna alþjóðlega glæpahringi á Íslandi. Ég er tilbúin til að styðja hæstv. dómsmálaráðherra í þeirri skoðun og í þeirri umræðu í samfélaginu sem þarf að fara fram um það að betra sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann, ef svo má að orði komast.

Greiningardeild ríkislögreglustjóraembættisins hefur skoðað þessi mál talsvert. Fyrir einu og hálfu ári eða svo var gefin út skýrsla um mat ríkislögreglustjóra á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Þetta var merkileg skýrsla, hún fór inn í umræðuna og það kom fram í henni að ákveðin grundvallarbreyting hefði orðið á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Fram að því að skýrslan var gerð höfðu aðallega íslenskir ríkisborgarar haldið uppi skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi og hún tengdist aðallega smygli, sölu fíkniefna og sölu tóbaks og áfengis. Síðan hefur veruleikinn breyst og aðkoma erlendra ríkisborgara að skipulagðri glæpastarfsemi hefur aukist. Þetta er svolítið viðkvæm umræða líka af því að ekki vill neinn vera sakaður um að tala eitthvað hastarlega til erlendra aðila sem eru hér á landi, alls ekki. Samt verðum við að fara í gegnum þessa umræðu líka. Íslenskir glæpahópar eru líka áfram fyrirferðarmiklir hér þó að aðrir hafi bæst í hópinn.

Allar upplýsingarnar sem greiningardeildin bjó yfir bentu til þess að skipulögð glæpastarfsemi hefði færst í vöxt hér á landi og yrði sífellt fjölbreyttari og að það yrði að skoða í fullri alvöru hvort við þyrftum ekki að búa yfir svokölluðum forvirkum rannsóknarheimildum innan málaflokksins, þ.e. að lögreglan gæti safnað upplýsingum áður en rökstuddur grunur lægi fyrir um tiltekið brot. Núna þurfa menn að hafa eitthvert tiltekið brot í huga og þá geta þeir farið að rannsaka það. Lögreglan annars staðar á Norðurlöndum hefur forvirkar rannsóknarheimildir. Hún getur sem sagt rannsakað þegar grunur er um eitthvað en það er ekki endilega tiltekið brot.

Ég held að raunveruleikinn sé sá að við þurfum að skoða þetta líka mjög alvarlega. Ég hlakka til að takast á við þá umræðu af því að heimurinn er svo breyttur. Lögreglan sinnir ekki aðeins núna hefðbundnum útköllum eins og var í þá góðu, gömlu daga, þetta er orðið miklu flóknara og fjölbreyttara, því miður, og það þarf að takast á við þá hluti með allt öðrum meðulum en við höfum gert hingað til.

Aftur yfir í nektardansstaðina, ég tel málið fullrætt og þakka kærlega fyrir þann stuðning sem því hefur verið sýndur, bæði í allsherjarnefnd og almennt í þinginu, og tel að við getum afgreitt málið mjög hratt úr þessu.