Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald

Þriðjudaginn 16. mars 2010, kl. 16:30:48 (0)


138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[16:30]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því máli sem hér er fjallað um. Það er tekið á vinklum í samfélagsgerðinni sem ég tel ákaflega mikilvægt að brugðist sé við af ákveðni og öryggi. Það hefur komið fram í umræðunni að það hefur tekið mikinn tíma að koma þessu máli í gegn en það hefur verið flutt nokkrum sinnum og mikið rætt í þinginu. Og nú hillir undir að málið fari í gegn.

Það tekur sem sé á þeirri hegðun sumra einstaklinga sem búa á meðal vor og virðast líta á það sem sjálfsagða hegðun og eðlilega framkomu við aðrar mannverur að sumir einstaklingar séu meðhöndlaðir eins og kjötstykki, það sé leyfilegt að setja ungar stúlkur upp á svið og hafa þær þar til sýnis fyrir aðra. Þetta eru „skemmtistaðir“ sem höfða til einhverra lægstu og lágkúrulegustu hvata mannverunnar og eru ekki sóttir af hugsandi fólki, heldur illa drukknum einstaklingum sem telja í ölæði sínu eðlilegt að sækja þessa staði. Það er það ekki og það eru ekki eðlileg skilaboð til ungs fólks, til barnanna okkar, að leyfa slíka starfsemi og lýsa hana löglega í samfélagi okkar. Það eru kolröng skilaboð og manni verður hugsað til þess hvers lags einstaklingar það eru sem hugsa svo um aðrar mannverur að þetta sé í raun og veru siðlegt og leyfilegt. Úr hvaða jarðvegi eru einstaklingar sprottnir sem líta svo á aðra einstaklinga að þeim sé þetta heimilt? Það er alveg örugglega margvíslegur bakgrunnur slíkra einstaklinga, en það er alveg klárt mál að skilaboðin sem þeir fengu í uppeldi sínu voru ekki af þeim toga að þetta teldist óeðlilegt, þvert á móti. Og væntanlega eru þetta einstaklingar sem hafa verið meðhöndlaðir eins og kjöt sjálfir sem gera þetta svona.

Það liggur fyrir að nektarbúllur á borð við þær sem hér verða bannaðar eru miðstöðvar glæpa, mansals, vændis og eiturlyfjasölu. Þetta kom klárlega fram í erindi lögreglunnar þegar hún kom á fund allsherjarnefndar og það er gustukaverk að loka slíkri starfsemi á Íslandi. Hér er um að ræða löggjöf sem miðar að því að gera alþjóðlegum glæpahringjum erfiðara að hefja og iðka sína vafasömu iðju hér á landi og skjóta hér rótum.

Ég tek undir það með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, formanni allsherjarnefndar, að starfsemi á borð við þessar nektarbúllur rímar mjög illa við ímynd Íslands sem hreins og óspillts land jafnréttis og mannvirðingar. Ég segi: Og þótt fyrr hefði verið, virðulegi forseti, að þetta mál færi í gegnum þingið. Það eru gömul sannindi að illvirki eru framin á meðan gott fólk gerir ekki neitt og hér tel ég okkur vera að vinna mjög þarft verk. Eins og margir aðrir sem lásu umfjöllunina um nýlegt mansalsmál sem upp kom hér á landi er ég sleginn óhug yfir lýsingum sem þar komu fram á aðstæðum þeirrar ungu stúlku sem þar um ræðir. Ég hafði satt best að segja ekki gert mér grein fyrir því hversu mikil harka væri á ferðinni í þessum efnum og hversu gjörsamlega siðblindir menn væru í framkomu sinni við aðrar mannverur, aðra einstaklinga. Það er ömurlegt til þess að hugsa að víða sé slík hegðun og slík framkoma talin eðlileg.

Í umsögnum þeim sem vitnað er til í nefndarálitinu segir að rannsóknir yfirvalda víða í Evrópu hafi sýnt fram á að stúlkurnar eru almennt mjög ungar en þó yfir lögaldri og þolendur misbeitingar af ýmsu tagi, svo sem vegna fátæktar og áfengis- og/eða eiturlyfjafíknar og í mörgum tilvikum eru þær fórnarlömb mansals eða annarra glæpa.

Við vitum í sjálfu sér ekki hvað hefur átt sér stað áður en þessar stúlkur voru settar upp á svið eða hafðar til sýnis eða látnar dansa einkadansa fyrir viðskiptavini slíkra búllna, áður en þær náðu lögaldri. Hvort sem um lögaldur er að ræða eða ekki er um að ræða mjög unga einstaklinga, í raun og veru börn sem teflt er fram og spilað með á þennan hátt.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns: Það eru ekki boðleg skilaboð til næstu kynslóðar, til þeirra sem erfa munu hér land, að svona lagað sé talið eðlilegt. Það eru ekki rök í málinu að með því að hafa svona starfsemi löglega megi hafa með henni eftirlit. Það sér hver maður að eftirlit sem hægt er að hafa með svona starfsemi er afar takmarkað, mjög erfitt að sanna brot af einhverju tagi á þessum stöðum þó að allir viti að þau eigi sér þar stað, hvort sem þau eru hrein og klár lögbrot eða fyrst og fremst fólgin í fullkomlega siðlausri hegðun gagnvart tilfinningum og réttindum mjög ungra einstaklinga í þessu tilfelli.

Því fagna ég þessu máli, þótt fyrr hefði verið.