Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. mars 2010, kl. 17:53:22 (0)


138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þó að ég skilji ekki hvað hv. þingmanni gengur til með að vera að líkja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við kött í ræðustól. Ég hef ekki í hyggju að líkja hv. þingmanni við neina dýrategund, hvorki skötusel né aðrar. Hitt vil ég segja alveg skýrt að það er hlálegt að saka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að hafa sagt í sundur sáttina í þessu máli. LÍÚ hefur aldrei viljað neina sátt um þessi mál og hefur aldrei sýnt neinn sáttahug í þeim. Það vita allir sem vilja vita að þaðan er það upprunnið og hefur ekkert með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera sem hefur sannarlega verið til samstarfs fús og reiðubúinn.

Hitt hef ég ekki skilið hjá þjóðkjörnum fulltrúum að koma upp á Alþingi og gefa út yfirlýsingar um að ráðherrar á Alþingi geti ekki sett lög um einstök atriði ef hagsmunasamtök úti í bæ leggjast gegn því. Nú erum við með heildarendurskoðun í gangi á skattkerfinu og við munum kalla mjög marga aðila til samráðs þar um. Ég vil spyrja hv. þingmann: Skilur þá hv. þingmaður það ferli þannig að öll þau fjölmörgu frumvörp um skattamál sem hafa verið lögð hér fram síðustu daga, um aðför að skattkröfum, greiðsluívilnanir skattkrafna, kyrrsetningu eigna, bílaleigurnar o.s.frv., mörg hver umdeild mál, svo að hæstv. fjármálaráðherra sé þá bara óheimilt að leggja fram slík mál vegna þess að hann hefur sett af stað endurskoðunarnefnd um skattkerfið? Á þá bara að hætta að gera breytingar á lögum á Alþingi meðan slíkar endurskoðanir fara fram? Hvaða afleiðingar telur hv. þingmaður að það hefði fyrir þá málaflokka sem legðu í slíkar endurskoðanir? Er hv. þingmanni ekki ljóst að heildarendurskoðanir á málaflokkum geta ekki bara tekið missiri heldur mörg ár? (Forseti hringir.) Á þá að frysta alla löggjöf á viðkomandi sviði? Hvers konar málflutningur er þetta?